Ráðist á norskt skip á Ómanflóa

  • by RÚV
  • 9 Months ago
  • Comments Off

Forsvarsmaður norska skipafélagsins Frontline staðfesti í viðtalið við blaðið Verdens Gang í morgun eldur hefði komið upp í einu skipa þess á Ómanflóa. Allir tuttugu og þrir skipverjar um borð hefðu verið fluttir yfir í annað skip. Engan hefði sakað. Fregnir af atburðum eru enn óljósar, en fjölmiðlar greindu frá því í morgun að eldur hefði blossað upp í olíuskipinu Front Altair. Skipið siglir undir fána Marshall-eyja en er í eigu fyrirtækisins Frontline þar sem skráður aðaleigandi er Norðmaðurinn John Fredriksen. Að sögn Verdens gang er enginn skipverja norskur.

Fréttavefurinn Bloomberg hafði eftir heimildarmanni að skipið hefði tekið olíu í Abu Dhabi, en það væri nú skammt undan ströndum Írans. Í vefútgáfu Tradewinds, blaðs  um skipaferðir og flutninga á sjó, er talið að skipið hafi orðið fyrir tundurskeyti, en það hefur ekki fengist staðfest.

Fulltrúar bandaríska flotans í Austurlöndum nær segja að annað skip hafi einnig orðið fyrir árás í morgun, Kokuka Courageous, sem sigli undir fána Panama. Áhöfn þess hafi einnig farið frá borði.

Fyrir nokkrum dögum löskuðust fjögur skip í árásum á Ómanflóa og fullyrða bandarískir ráðamenn og bandamenn þeirra í þessum heimshluta að Íranar hafi verið að verki. Þeir segjast hvergi hafa komið þar nærri.

 

  • facebook
  • googleplus
  • twitter
  • linkedin
  • linkedin
Previous «
Next »