100 ára bið erfingjanna er á enda – Nú fá þeir arfinn loksins og hann er ekkert smáræði – DV

0
6

Hvað myndir þú gera ef þú fengir margar milljónir, jafnvel tugi milljóna, skyndilega upp í hendurnar? Flestir geta eflaust aðeins látið sig dreyma um hvað þeir myndu gera við peningana. En á morgun, þriðjudag, rennur merk stund upp hjá fjölskyldu einni. 100 ára bið verður á enda. Þá verða 100 ár liðin frá því að Daninn Lars Emil Bruun lést. Hann skildi eftir sig einstaka erfðaskrá og arf af stærðargráðu sem fæstir geta ímyndað sér.

Bruun var heildsali og auðgaðist mjög á tíma iðnvæðingarinnar, aðallega á að selja smjör frá Danmörku til Englands.

En hann átti sér áhugamál og það er þetta áhugamál sem kemur erfingjum hans nú til góða. Samkvæmt frétt Finans þá er um tvö systkin að ræða og hugsanlega fleiri, sem munu erfa Bruun, en fjölmiðlar hafa ekki fengið það staðfest. Berlingske segir að erfingjar Bruun hafi vitað af þessu allt sitt líf en nákvæmlega hverjir þeir eru og hversu margir sé „opinbert leyndarmál“.

Víkur þá að því sem fólkið mun erfa. Þetta er myntsafn með 18.000 sjaldgæfum myntum. Það er svo verðmætt að það er geymt í sprengjuheldum fjárhirslum danska seðlabankans.

Í erfðaskrá Bruun kemur fram að safnið sé fyrst og fremst varasafn fyrir hið konunglega mynt- og orðusafn sem er á danska þjóðminjasafninu. En þar sem hvorki hefur kviknað í þjóðminjasafninu síðustu 100 árin né myntsafninu verið stolið þaðan þá er kominn tími til að myntsafn Bruun verði boðið upp og erfingjar hans fái að njóta auðæfanna.

Myntsafnið er tryggt fyrir sem nemur um 5 milljörðum íslenskra króna.

Ekki er vitað hvað mun fást fyrir safnið á uppboði en ætla má að upphæðin muni hlaupa á sem nemur mörgum milljörðum íslenskra króna.