4.3 C
Grindavik
16. október, 2021

147 ár við búðarborðið

Skyldulesning

Frá vinstri: Jón M Ragnarsson Sigþór Bjarnasson og Ragnar Sverrisson

Frá vinstri: Jón M Ragnarsson Sigþór Bjarnasson og Ragnar Sverrisson

mbl.is/Þorgeir

„Ég held að þetta sé farið að slaga í samtals 150 ár við búðarborðið,“ segir Ragnar Sverrisson, kaupmaður á Akureyri, sem rekið hefur Herrafataverslunina JMJ. Vísar hann þar til samanlagðrar starfsreynslu sonar hans Jóns M. Ragnarssonar, viðskiptafélaga Sigþórs Bjarnasonar og sinnar eigin. Allir starfa þeir í versluninni. 

„Ég byrjaði hérna sextán ára gamall og er núna orðinn 71 árs. Það eru orðin 55 ár síðan. Tengdapabbi minn stofnaði verslunina áður en ég tók við. Synir mínir og börn hafa svo verið að taka hægt og rólega við. Þau vilja hins vegar áfram hafa gamla kallinn í vinnu og ég segi stundum að ég sé bara rétt að byrja. Það er svo gaman að vera í þessu búðarstússi,“ segir Ragnar sem sömuleiðis hefur gegnt formennsku í Kaupmannafélaginu á Akureyri. 

Með fjölmarga fastakúnna

Aðspurður segir hann viðskiptavini verslunarinnar fyrst og fremst vera fastakúnna. Þá sé þjónustan mjög persónuleg. „Við eigum mjög góða viðskiptavini um allt land. Fólk kemur hingað að austan, sunnan og vestan. Hér fær það persónulega þjónustu.“

Að hans sögn hefur reksturinn gengið ágætlega það sem af ári þrátt fyrir faraldur. „Þegar landinn fór að ferðast í sumar þá var alveg rosalega mikið af gömlum viðskiptavinum að koma hérna. Það var virkilega gaman. Fólk kom hingað og keypti föt í stað þess að fara til útlanda,“ segir Ragnar sem kveðst sáttur þegar hann lítur yfir farinn veg. 

„Þröng föt“ vinsælust

„Það eru skin og skúrir í þessu eins og öllum viðskiptum. Þetta er gamalt, gott og stöndugt fyrirtæki en það eru ekki alltaf jólin í þessu. Á heildina litið hefur þetta bara gengið vel.“

Blaðamaður getur ekki sleppt Ragnari án þess að spyrja hann hvaða snið sé vinsælast nú um mundir. Það stendur ekki á svarinu: „Þegar maður talar við yngri mennina þá vilja þeir hafa fötin þröng. Ég þarf alltaf að spyrja þá hvort þeir vilji ekki prófa númeri stærra. Mér finnst maður alltaf vera að selja númeri of lítið,“ segir Ragnar. 

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir