3 C
Grindavik
28. febrúar, 2021

160 metra skip með nýjan pramma

Skyldulesning

Unnið er að undirbúningi þess að dæla hráolíu úr prammanum.

Ljósmynd/Jens Garðar Helgason

Þjónustuskipið Skandi Acercy lagðist að bryggju á Eskifirði í fyrrinótt. Frá borði var hífður tæplega 20 metra prammi, sem Laxar ehf. hafa leigt frá Noregi til að sinna fóðrun í eldiskvíum við Gripalda í sunnanverðum Reyðarfirði.

Flutningaskipið er 160 metra langt, 27 metrar á breidd og það er búið öflugum krana og þyrlupalli. Það var upphaflega væntanlegt til Eskifjarðar á laugardag, en seinkaði aðeins vegna veðurs á leiðinni.

Nýi pramminn tekur um 320 tonn af fóðri og kemur í stað aðeins stærri pramma, Munins, sem sökk við kvíarnar í illviðri aðfaranótt 10. janúar. Undanfarið hafa fjórir þjónustubátar með fóðurbyssur sinnt fóðrun fisksins í 16 kvíum við Gripalda. Þar eru nú um 3.900 tonn af fiski sem verður kominn í sláturstærð í haust.

Jens Garðar Heglason, framkvæmdastjóri Laxa, segir að unnið sé að undirbúningi þess að dæla um tíu þúsund lítrum af hráolíu úr prammanum. Ekki sé endanlega ljóst hvenær og hvernig staðið verði að málum, en aðstæður þurfi að vera góðar. Málið er unnið í samvinnu fyrirtækisins, Fjarðabyggðarhafna, Umhverfisstofnunar og tryggingafélags Laxa. Ekki hefur orðið vart við olíuleka frá prammanum.

Innlendar Fréttir