Hollenski stórmeistarinn Max Warmerdam, 22 ára, leiðir nú Kviku Reykjavíkurskákmótið sem stendur yfir þessa dagana í Hörpu.
Forystan kemur nokkuð á óvart en Wamerdam á góðu gengi að fagna og er með sex vinninga af átta en hann er áttundi stigahæsti keppandinn, með 2.599 elostig.
Sextán ára stórmeistarinn og undrabarnið Rameshbabu Praggnanandhaa fylgir fast á eftir Warmerdam ásamt fjórum öðrum; þeim Mads Andersen, Taniu Sachdev, Idani Pouya og Matthieu Cornette.
Alls taka þátt 245 keppendur frá 50 löndum í Reykjavíkurmótinu – mótið er vel þekkt í skákheiminum og hefur skipað sig ofarlega á lista yfir bestu opnu skákmót heims hjá Samtökum atvinnuskákmanna (ACP).
Keppendur á Reykjavíkurskákmótinu
Fjölbreyttur hópur tekur þátt í Reykjavíkurskákmótinu og verða hér nokkrir nefndir á nafn:
Rameshbabu Praggnanandhaa (2624)
Praggnanandhaa er sextán ára undrabarn frá Indlandi og fimmti yngsti stórmeistari allra tíma. Hann hefur ekki látið sig vanta á Reykjavíkurskákmótið undanfarin ár. Óhætt er að segja að mótið njóti vinsælda meðal sterkra indverskra skákmanna í ár en fimm af sjö stigahæstu keppendunum koma þaðan. Hann er í öðru sæti í mótinu ásamt fleirum, með 5 og hálfan vinning.
Tania Sachdev (2392)
Indverska skákdrottningin Tanya Sachdev er þekkt innan skákheimsins og hefur látið til sín taka sem álitsgjafi og skýrandi í skákmótum. Hún er alþjóðlegur meistari og stendur sig vel í mótinu, í öðru sæti ásamt öðrum, með fimm og hálfan vinning.
Idani Pouya (2638)
Indverski stórmeistarinn Idani Pouya er stigahæsti keppandi mótsins og fylgir fast á eftir hinum unga Warmerdam, með fimm og hálfan vinning en þeir mætast einmitt á morgun í áttundu umferð. Verður eflaust spennandi viðureign.
Anna Bellon Cramling (2057)
Anna Cramling er ung og efnileg skákkona frá Svíþjóð, fædd 2002. Hefur hún ekki síst vakið athygli fyrir sitt vinsæla skákstreymi á Twitch en þar hefur hún hvorki meira né minna en 202 þúsund fylgjendur.
Diana Mirza (1905)
Diana Mirza er ung og ekki síður efnileg skákkona frá Írlandi, sem teflir nú í annað skiptið á Reykjavíkurskákmótinu. Varð hún fyrsti heimsmeistari Íra í skák þegar hún hreppti titilinn í U17 heimsmeistaramóti grunnskóla árið 2017.
Áttunda umferð Reykjavíkurmótsins hefst í Hörpu klukkan 16.00 í dag og eru áhorfendur velkomnir.