Afhendingaráætlun á bóluefni frá Pfizer hér á landi liggur fyrir, fyrir fyrsta ársfjórðung 2021. Að meðaltali munu berast til Íslands 3.000 skammtar á viku af bóluefni frá Pfizer frá 27. desember og út mars.
Bóluefni frá AstraZeneca og Moderna mun að öllum líkindum einnig vera tilbúið til afhendingar á fyrsta ársfjórðungi. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í ræðu sinni á þingfundi í dag. Þar flutti hún munnlega skýrslu um horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19.
„Hér er um að ræða vöru sem meiri eftirspurn er eftir en af nokkurri vöru í sögunni. Bóluefni gegn Covid 19 sem hvert einasta mannsbarn horfir eftir og bíður eftir með eftirvæntingu,“ sagði Svandís.