54.000 ára steinoddar eru elsta sönnunin um boga og örvar í Evrópu – DV

0
139

Ný gögn um að bogar og örvar hafi verið notaðar snemma af fyrstu nútímamönnunumí Evrópu fyrir 54.000 árum styrkja hugmyndir um að þessi tækni gæti hafa veitt nútímamönnum ákveðna yfirburði yfir Neanderdalsmennina. Live Science segir að það að tekist hefur að staðfesta að bogar og örvar hafi verið notaðar í Evrópu fyrir 54.000 árum styrki hugmyndir um að þessi vopn hafi skipt miklu þegar kom að útbreiðslu nútímamanna um álfuna.

Vísindamenn fundu steinodda, á örvar, í steinskýli sem nútímamenn bjuggu í fyrir um 54.000 árum þar sem nú er suðurhluti Frakklands. Fram að þessari uppgötvun voru 12.000 ára gamlir munir, sem fundust í Norður-Evrópu, elstu ummerkin um notkun boga og örva í álfunni.

Talið er að það hafi fært nútímamönnum ákveðna yfirburði yfir Neanderdalsmenn að geta notað boga og örvar en aldrei hefur fundist sönnun fyrir því að Neanderdalsmenn hafi notað boga og örvar.