Alls voru 14.900 einstaklingar atvinnulausir í nóvember síðastliðnum eða 7,1% af vinnuaflinu.
Þetta kemur fram í árstíðaleiðréttum tölum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands.
Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 79,7% af vinnuafli og árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi 74,3% af mannfjölda. Samanburður við október 2020 sýnir að árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi lækkaði um 0,2 prósentustig og árstíðaleiðrétt atvinnuleysi jókst um 0,3 prósentustig.
Síðustu 6 mánuði hefur leitni árstíðaleiðréttingar á hlutfalli starfandi fólks lækkað um 1,0 prósentustig og leitni atvinnuleysis aukist um 1,0 prósentustig, að því er segir í tilkynningu frá Hagstofunni.
Samanburður við nóvember 2019 sýnir að atvinnuþátttaka hefur aukist um 0,7 prósentustig á milli ára. Hlutfall starfandi hefur dregist saman um 1,8 prósentustig á milli ára og atvinnuleysi aukist um 3,1 prósentustig. Meðalfjöldi unninna stunda hefur dregist saman um 1,6 stundir.