3 C
Grindavik
1. mars, 2021

Abraham með þrennu í bikarsigri

Skyldulesning

Tammy Abraham fagnar þriðja marki sínu í leiknum í dag …

Tammy Abraham fagnar þriðja marki sínu í leiknum í dag ásamt Callum Hudson-Odoi.

AFP

Chelsea vann 3:1 sigur á B-deildar liði Luton Town á Stamford Bridge-vellinum í Lundúnum í ensku bikarkeppninni í dag. Tammy Abraham, framherji Chelsea, fór á kostum og skoraði öll þrjú mörk Chelsea.

Abraham, sem hefur ekki átt fast sæti í liðinu, var greinilega áfjáður í að sýna sig og sanna og var búinn að skora tvö mörk áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður.

Fyrst skoraði Abraham á 11. mínútu þegar Timo Werner lagði boltann til hliðar á hann í teignum, þar sem Abraham átti ekki  í neinum vandræðum með að leggja boltann í bláhornið.

Á 17. mínútu tvöfaldaði hann forystu Chelsea. Reece James átti þá frábæra fyrirgjöf og Abraham stökk manna hæst og skallaði boltann laglega í netið.

Svo virtist sem liðsmenn Chelsea ætluðu hreinlega að keyra yfir gestina í Luton en gestirnir voru ekki á því. Á 30. mínútu minnkaði nefnilega Jordan Clark muninn. Þá fékk hann fyrirgjöf með jörðinni frá James Bree, fyrirgjöfin hafði farið af varnarmanni en Clark náði skoti nálægt Kepa Arrizabalaga í marki Chelsea, sem varði það í netið og staðan orðin 2:1.

Þannig stóðu leikar í hálfleik og hélt Chelsea áfram að sækja að marki Luton í síðari hálfleiknum.

Eftir tæplega klukkutíma leik komust Luton þó nálægt því að jafna metin. Daniel Potts náði þá boltanum eftir slæma hreinsun Reece James og gaf boltann á Pelly Ruddock. Ruddock var fljótur að hugsa og renndi boltanum strax til Harry Cornick sem var í sannkölluðu dauðafæri í teignum en skot hans beint á Kepa sem varði boltann út.

Á 74. mínútu gerði Chelsea svo út um leikinn þegar Abraham fullkomnaði þrennu sína. Callum Hudson-Odoi tók þá laglegan þríhyrning við Billy Gilmour og geystist upp vinstri kantinn, komst inn í vítateig og gaf fasta sendingu fyrir markið á Abraham sem gat ekki annað en skorað af stuttu færi, 3:1.

Chelsea hefði getað bætt við fjórða markinu á 85. mínútu. Þá braut markaskorari Luton, Clark, á Werner. Werner steig sjálfur á vítapunktinn en Simon Sluga í marki Luton varði slaka spyrnu Þjóðverjans næsta auðveldlega.

Lokatölur því 3:1 og Chelsea er þar með komið áfram í fimmtu umferð, þar sem það mætir B-deildar liði Barnsley á útivelli.

Innlendar Fréttir