5 C
Grindavik
5. mars, 2021

Að banna „alla vitleysu“

Skyldulesning

Nú er komið fram á Alþingi frumvarp um að banna að draga Helförina í efa, sð segja hana ekki hafa átt sér stað, eða gera lítið úr henni.

Í sjálfu sér held ég að fáir séu innst inni á móti slíku.

En er hægt að banna vitleysu?

Nú er ég í engum vafa um að Helförin átti sér stað og hef komið á nokkra af þeim stöðum sem hún átti sér stað á.

En eigum við að festa í lög að bannað sé að hafna öllum atburðum í mannkynssögunni sem við teljum hafna yfir allan vafa?

Yrði ekki listinn æði langur?

Ættu þjóðir ef til vill að gefa út „sögubækur“ og bannað yrði að víkja frá þeim?

Ég held ekki.

Ættu Íslendingar (eða aðrar þjóðir) að banna að afneita Holodomor, það er þeirri hungursneyð sem Sovétríkin ullu visvitandi í Ukraínu á 3ja áratug síðustu aldar og kostaði milljónir einstaklinga lífið?

Almennt er þessi viðurstyggilegi atburður talinn staðreynd í dag, en þó eru ýmsir sem enn afneita honum.

Hér má lesa um slíka afneitun, frá árinu 2019.

Ætti að banna að afneita þjóðarmorði Tyrkja á Armenum árið 1915?

Það má lengi halda áfram, enda nægur efniviður um hroðalega atburði og fjöldamorð í mannkynssögunni.

Hvernig eigum við að taka á öllum þeim sem neituðu að fjöldamorðin í Kambódíu (Kampucheu) hefðu átt sér stað?  Ég held þó að slík söguskoðun hafi að mestu látið undan síga.

Ætti hið opinbera að taka afstöðu um  þjóðarmorð Kínverskra stjórnvalda á Uigurum og banna að öðru sé haldið fram?

Ég get alveg viðurkennt að þeir sem afneita Helförinni fara í taugarnar á mér og ég eiginlega afskrifa þá um leið í allri umræðu.

Það þýðir ekki að ég telji þá eiga fangelsisvist skylda.

Það sama gildir um þá sem afneita eða vilja gere lítið úr glæpum kommúnista.

Ég hef hvorki mælst til þess að hakakrossinn eða að hamar og sigð séu bönnuð.

Hakakrossinn á sér merkilega sögu, þó að viðurstyggileg verk nazista kasti dökkum skugga á hann.

Ég get hins vegar í huga mér enga jákvæða tengingu fundið fyrir hamar og sigð, þó hefur á undanförnum árum mátt sjá ýmsa Íslendinga skreyta sig (eða kökur) með því tákni.

En ég er ekki talsmaður þess að það yrði bannað eða varðaði fangelsisvist.

Það er einfaldlsega ekki lausn að banna „alla vitleysu“, þar eru rök og fræðsla verkfæri sem duga betur.

Það má til dæmis velta því fyrir sér hvort að fræðsla um Helförina eða glæpi kommúnismans sé næg á Íslandi.


Innlendar Fréttir