9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Að skammstafa rétt og gluggar sem halda

Skyldulesning

Í morgun, 7. feb. 2022Gluggarnir sem Diddi smiður gerði við í síðustu viku stóðust prófið í þessu villta óveðri sem lék við okkur landsmenn í nótt. Suðsaustanstormur. Ég hafði ákveðið að sofna snemma og rífa mig svo upp með látum eldsnemma og reyna að ná nokkrum eldingum, en nei. Sennilega var ég of spennt til að geta sofnað snemma. Og loks þegar ég sofnaði var það við brjálað vindgnauð. Litlusvaladyrnar sem snúa einmitt í suðaustur láku eins og Eurovision-lögin – bleyttu í gegn eitt þykkt baðhandklæði og nokkur dagblöð, ekki fór dropi á dagblöðin sem voru á gólfinu fyrir neðan þröskuldinn. Góð sjálfsvörn, myndi gamli karate-kennarinn minn kalla það. Geggjaður lás, myndu gömlu nemendur mínir í Ju Jitsu segja kátir. En auðvitað í gríni og meina að ég hefði nánast skellt í lás á alla bleytuna sem reyndi inngöngu í himnaríki. Þegar næsta svona veður kemur verður Diddi búinn að redda þessu.

Mynd: Svona leit ytri vettvangurinn út í morgun, snjólétt (Hilda) að vanda og sjórinn alveg geggjaður. Kvöldflóðið inniheldur stærri öldur, sýnist mér að verði, nú mætti vera bjart lengur. 

Ég í hvítaEins og glöggir blogglesendur mínir vita, hef ég áhuga á veðri og tölum (og vefmyndavélum, hekli, kisum, bóklestri og auðvitað friði á jörð eins og ég sagði svo eftirminnilega í fegurðarsamkeppninni um árið (Jómfrú Heimur-eitthvað) og allar fegurðardrottningar hafa sagt á eftir mér, sumar unnið meira að segja) en skammstafanir geta líka verið skemmtilegar. Nú langar mig svolítið til að bæta við millinafni til að herma eftir systkinum mínum og heita tveimur. Hrefna finnst mér fallegt og koma vel út en skammstöfunin samt verulega boring; GHH. Dæmi um það sem ég meina:

„Davíð frændi!“

„Já, kæra Gurrí uppáhaldsfrænka mín í öllum heiminum.“ (Sviðsett samtal til útskýrinar)

„Ef þú eignast einhvern tímann dóttur, væri þá ekki sniðugt ef hún yrði látin heita t.d. Lena Sigurfljóð Davíðsdóttir?“

„Ha, af hverju?“

„Nú, út af skammstöfuninni.“

„Guðríður almáttugur,“ sagði stórhneykslaður en samt súperindæll frændi minn sem léti dótturina frekar heita Tinnu. Eða Guðríði Oddnýju … sem ég sætti mig alveg við.

Hægt væri að búa til sniðug orð úr upphafsstöfum nafna barna sinna … ég gleymi t.d. aldrei manninum með upphafsstafina RÓS og fæddist um jólin, við vorum að gantast með þetta í síma í vinnunni hjá mér, ég þurfti að skrá nafn hans og kennitölu og rak augun í þetta skemmtilega mynstur. Maðurinn var sérlega hress og fannst þetta bráðskemmtilegt. Svo mætti hann í eigin persónu í vinnuna til mín og samstarfskona mín varð steinhissa þegar þessi ungi og myndarlegi maður mætti, heilsaði mér vingjarnlega og sagði: „Ég er jólarósin.“ Þetta þurfti talsverðar útskýringar síðar en hún skildi samt ekki snilldina við þetta, held ég. (Hef áður sagt frá þessu hér en þetta bara smellpassar inn í umræðuna).

LED: Light Emitting Diode / Linda Emilía Davíðsdóttir?

GPS: Global Positioning System / Guðríður Pálína Schiöth?

PDF: Portable Document Format: Petra Dögg Fjóludóttir.

Jónína Árnadóttir er JÁ. Sigrún Ágústa Ármannsdóttir er SÁÁ. Og svo framvegis. 

Vona að ég hafi gefið ykkur margar dásamlegar hugmyndir.

Það verður eitthvað gott í matinn í kvöld … Eldum rétt-bílstjórinn mætti áðan með fullan kassa af fersku góðgæti. Ég reyni alltaf að gleyma því hvað ég pantaði tæpri viku áður svo ég verði alltaf jafnánægð og hissa, og ekki síst stórhrifin af góðum matarsmekk mínum. Fiskur í dag og fiskur á morgun, bara æði. Og hjartans Einarsbúð kom með restina af því sem vantaði núna rétt áðan. Nú getur tilveran haldið áfram.  


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir