2.3 C
Grindavik
27. janúar, 2023

„Aðstæður voru vægast sagt mjög krefjandi“

Skyldulesning

Af vettvangi í gærkvöldi.

Af vettvangi í gærkvöldi. Ljósmynd/Friðjón Árni Sigurvinsson

„Aðstæður voru vægast sagt mjög krefjandi,“ segir Reimar Viðarsson, björgunarsveitarmaður á Dalvík en hann situr einnig í aðgerðarstjórn almannavarna á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is um snjóflóðið sem varð í gær með þeim afleiðingum að einn lést. 

Hann segir að mennirnir þrír sem lentu í flóðinu í Skeiðsfjalli í Svarfaðar­dal hafi verið vel búnir og hafi haft með í för einhverjar græjur. „Ég get þó ekki fullyrt um hvað þeir voru nákvæmlega með.“

Mennirnir höfðu gengið upp fjallið og ætlað að renna sér niður á skíðum þegar snjóflóðið varð. 

Viðbragðsaðilar fóru með vélsleðum upp í hlíð fjallsins. Reimar segir að tveir mannanna sem voru ofanflóðs hafi fundist nánast strax og fljótlega eftir það hafi síðan þriðji maðurinn fundist en hann var í jaðrinum á flóðinu.

„Það var ekki mikið snjómagn. Það getur verið mikill kraftur, það þarf ekki alltaf að vera mikill snjór heldur högg sem kemur á undan getur valdið usla. Gilið er mjög þröngt, ekki nema um 4 til 5 metra breitt,“ segir hann og á þá við gilið sem mennirnir voru að renna sér niður. 

Á vef Veðurstofu Íslands er greint frá því að mennirnir fundust undir gilinu sem nær í fjallsbrúnina sem er í ríflega 900 m hæð.

Brotstál sást hátt uppi í gilinu, um 700 metra hæð, en ekki er vitað hvar mennirnir voru staddir þegar flóðið fór af stað. Flóðið var ekki stórt en virðist hafa fallið á töluverðum hraða niður bratta hlíð yfir urð og grjót.

Eðlilegur viðbragðstími

Það tók viðbragðsaðila um þrjú kort­er að kom­ast á vett­vang frá því að til­kynn­ing­in barst. 

Reimar segir að um sé að ræða eðlilegan viðbragstíma miðað við aðstæður og staðsetningu. 

„Það er boðið út um leið og kallið berst. Það tekur fólk smá tíma að komast heiman að frá sér og í sínar bækistöðvar. Síðan tekur akstur frá Dalvík og fram í Skeið um 20 mínútur. Þó að við séum auðvitað að flýta okkur þá verðum við að passa að skapa ekki fleiri slys. Við verðum engum að liði ef við komumst ekki heil á þann stað þar sem við ætlum að bjarga öðrum.“

mbl.is ræddi við þyrluflugmann í dag sem vildi ekki láta nafns síns getið, en hann benti á að níu þyrlur hafi verið á Tröllaskaga í gær auk sérþjálfaðra leiðsögumanna sem fengu ekki fregnir af slysinu fyrr en klukkustundu eftir að útkallið barst. 

Reimar vildi ekki tjá sig um þá ákvörðunartöku að hafa ekki samband við einkaaðilana á svæðinu og vísaði á lögreglu sem er ábyrgðaraðili málsins.

Lögreglan á Norðurlandi eystra vildi ekki tjá sig um málið við mbl.is.

Krefjandi útköll

Reimar bendir á að þetta sé ekki fyrsta alvarlega slysið sem verði á fjallaskíðafólki þennan vetur. 

„Það segir ýmislegt um aðstæðurnar sem eru núna og hafa verið síðastliðinn mánuð. Það hefur verið heldur snjólétt og mikið svell. Snjórinn verður mjög ótraustur og hefur enga bindingu við þann snjó sem fyrir var.“

Reimar segir að oftast sé um þaulvant fólk að ræða sem hafi lent í slysunum og að það sé vel undirbúið, „það segir ýmislegt.“

Um 130 manns tóku þátt í aðgerðinni í gær og leit viðbragðsteymi Rauða kross­ins á Dalvík við þeim sem fyrst­ir komu á vett­vang.

„Á Dalvík hafa undanfarið borist nokkur krefjandi útköll. Það hafa fjögur alvarleg skíðaslys orðið þennan veturinn. Það reynir auðvitað á þetta fólk sem er í grunninn sjálfboðaliðar. Við erum ekki atvinnumannalið og verðum að gera allt til þess að halda okkar fólki á réttum kili,“ segir Reimar. 

Snjórinn hefur verið mjög ótraustur að sögn Reimars.

Snjórinn hefur verið mjög ótraustur að sögn Reimars. Ljósmynd/Friðjón Árni Sigurvinsson

Slysin gerast hátt uppi í fjalli

Hann segir að almennt hafi einstaklingar lent í snjóflóðunum mjög hátt upp í fjall. 

„Menn eru að komast á skíðin eða jafnvel áður. Þetta er ekki að gerast í neðstu brekkunni í fjallinu.“

Engin tilkynningarskylda er fyrir fjallaskíðafólk. Reimar bendir á að nú séu páskarnir að nálgast og þá fari margir Íslendingar, sem eru kannski óvanir, í skíðaferðir. 

„Það er mikilvægt að brýna fyrir fólki að skilja eftir ferðatilhögun og menn séu með símana sína hlaðna, hafa þessi grunnatriði í huga.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir