6 C
Grindavik
1. desember, 2020

Aðstoða fiskibát sem strandaði

Skyldulesning

Lítill fiskibátur strandaði í sunnanverðum Tálknafirði á sjöunda tímanum í kvöld. Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að báturinn sé nú kominn á flot aðstoð annars fiskibáts. Enginn leki kom að bátnum sem heldur nú inn til hafnar í Tálknafirði. 

Björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Patreksfirði hefur verið snúið við og þyrla Landhelgisgæslunnar heldur til æfinga með áhöfninni á varðskipinu Tý í Ísafjarðardjúpi eins og til stóð. 

Að sögn Gæslunnar var einn er um borð í bátnum og gerði hann stjórnstöð Landhelgisgæslunnar viðvart um strandið.

Greint var frá því fyrr í kvöld, að áhafnir þyrlu Landhelgisgæslunnar og björgunarskipsins á Patreksfirði, sem er á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hefðu verið kallaðar út auk þess sem bátar í grenndinni voru beðnir um að halda á staðinn.

Veður er ágætt á svæðinu og sá sem er um borð telur litla hættu vera á ferðum. 

Innlendar Fréttir