4 C
Grindavik
9. maí, 2021

„Æ, enn eitt vesenið hjá henni“

Skyldulesning

Ofbeldi gegn fötluðu fólki er samfélagsmein sagði Heiða Björg Hilmisdóttir …

Ofbeldi gegn fötluðu fólki er samfélagsmein sagði Heiða Björg Hilmisdóttir formaður Velferðarráðs og ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur en hún var fundarstjóri velferðarkaffis.

mbl.is/Hari

„Ég upplifi það í réttargæslunni að fatlað fólk sé hunsað þegar það leitar eftir hjálp. Fólk trúir því ekki,“ sagði Jón Þorsteinn Sigurðsson, yfirmaður réttindagæslumanna hjá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, í velferðarkaffi í morgun.

Ofbeldi gegn fötluðu fólki er samfélagsmein sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs og ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur, en hún var fundarstjóri velferðarkaffis. Umfjöllunarefnið var fatlað fólk og ofbeldi gegn því.

Jón Þorsteinn sagði hlutverk réttargæslumanna að veita fötluðu fólki stuðning og aðstoð við að leita réttar síns. „Við vitum að fatlað fólk er oft í þeirri stöðu að við sem erum ófötluð gefum þeim ekki færi á að eiga síðasta orðið,“ sagði Jón Þorsteinn en hver sá sem telur að brotið sé á réttindum fatlaðs fólks skal tilkynna það til réttindagæslumanns.

„Allir geta leitað til okkar,“ sagði Jón Þorsteinn. „Við leiðbeinum fólki í framhaldinu hvert það á að leita,“ bætir hann við en frá 1. apríl hafa 1597 erindi til réttargæslumanna á landinu verið skráð.

„Það er mikið mál að segja frá ofbeldinu og enn meira mál að segja frá hjá lögreglu og upplifa það í annað sinn. Síðan er stórmál að vita ekki niðurstöðuna og lifa með málinu meðan niðurstöðu er beðið,“ sagði Jón Þorsteinn.

Hann telur að sveigja þurfi þjónustuna að fólkinu sem lendir í ofbeldi og tekur dæmi af ósveigjanleika en fatlaðar konur hafa ekki aðgang að Kvennaathvarfinu. 

Stuðningi við þolendur ábótavant

Hrafnhildur S. Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Rannsóknarsetri HÍ í fötlunarfræðum, sagði fatlað fólk frekar beitt ofbeldi og að fatlaður konur væru í sérstökum áhættuhópi. Ofbeldi gegn þeim tengdist jaðarsetningu þeirra.

„Við vitum að ofbeldi hefur fengið að dafna í aðgreindri þjónustu. Einnig vitum við að stuðningi við þolendur er ábótavant,“ sagði Hrafnhildur.

Hrafnhildur S. Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Rannsóknarsetri HÍ í fötlunarfræðum.

Hrafnhildur S. Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Rannsóknarsetri HÍ í fötlunarfræðum.

Hún sagði niðurstöður rannsókna benda til þess að því fleiri jaðarsettum hópum sem fólk tilheyrði því meiri líkur væru á því að viðkomandi yrði fyrir ofbeldi.

„Einnig eru jaðarsettu hóparnir ólíklegri til að fá stuðning við hæfi. Ólíklegri til að komast út úr aðstæðunum og nálgast rétt sinn,“ sagði Hrafnhildur. 

Hún sagði konum ótrúlega oft ekki trúað og viðbrögðin væru á þá leið að þær væru einfaldlega til vandræða. „Þær heyra hluti eins og „æ, enn eitt vesenið hjá henni“,“ sagði Hrafnhildur.

Stuðningur sem er í boði er að mati Hrafnhildar oft óaðgengilegur og ekki miðaðar að þörfum fatlaðra kvenna.

Hún sagði að auka þyrfti aðgengi að fötluðum konum, hlusta á þær, efla stuðning sem þróaður er af fötluðum konum og vinna markvisst gegn fordómum.

„Við þurfum að hafa fatlað fólk sem leiðir þessa vinnu,“ sagði Hrafnhildur.

Fólk leggi við hlustir

Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, aktívisti, sjónvarpskona og starfskona á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, og ein af stjörnunum úr sjónvarpsþáttunum „Með okkar augum“, sagði rosalega mikilvægt að hlustað væri á fatlað fólk.

Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, aktívisti, sjónvarpskona og starfskona á mannréttinda- og …

Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, aktívisti, sjónvarpskona og starfskona á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, sagði að það væri erfitt þegar fólk tryði ekki hennar orðum.

„Fólk á að trúa okkur,“ sagði Steinunn Ása.

Hún lýsti því hvernig ráðist var á hana þegar hún var 18 ára gömul og tilraun gerð til að misnota hana. Hún sagði erfitt þegar fólk tryði ekki orðum hennar.

„Skömmin er ekki mín heldur gerandans,“ sagði Steinunn Ása og ítrekaði að þegar fatlað fólk segði frá ættu aðrir að leggja við hlustir.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir