Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, vildi ekki tjá sig nánar um það sem fram fór í fagnaðarlátum liðsins eftir að EM sætið var tryggt í Ungverjalandi fyrr í vikunni.
Fyrr í dag birti Fótbolti.net frétt þess efni að framkoma Jón Þór í fögnuði liðsins hefði ekki verið eins og best var á kosið. Var hann undir áhrifum áfengis og þótti hann fara yfir strikið í samtölum sínum við leikmenn íslenska landsliðsins.
„Varðandi þetta kvöld að þá áttu sér stað samtöl milli þjálfara og leikmanna sem hefðu vissulega ekki átt að eiga sér stað á þessum tímapunkti og við þessar aðstæður. Ég tók þátt í að fagna okkar árangri og eftir á að hyggja voru það mistök. Ég hef rætt við hluta þeirra leikmanna sem ég átti þessi samtöl við og beðist afsökunar,“ sagði Jón Þór í viðtali við Fótbolti.net um það sem fram fór eftir 1-0 sigurs Íslands á Ungverjalandi ytra.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í samtali við Fótbolti.net að málið væri í skoðun hjá sambandinu.
Í stuttu samtali við Vísi í kvöld kvaðst Jón Þór ekki hafa neinu að bæta við það sem kom fram í samtali hans við Fótbolti.net.
Sagðist Jón Þór hafa rætt við hluta leikmanna sem hann átti samtal við í Ungverjalandi nú í dag eftir að málið kom upp, annars vildi hann ekki tjá sig að svo stöddu.