3 C
Grindavik
7. maí, 2021

Af árinu 1802

Skyldulesning

Almennt samkomulag virðist um að telja árið 1802 eitt hið versta sem um getur hér á landi. Við eigum þó engar hitamælingar veturinn 1801 til 1802. Svo sýnist samt sem frost hafi e.t.v. ekki verið meiri en oft áður og síðar, en tíð var mjög ill. Fannkomur, blotar,  áfreðar og illviðri. Vorið var mjög kalt og snjór alveg sérlega mikill lengi fram eftir. Sumarið var kalt, bleytur og ísaþokur ríktu nyrðra, en syðra var lengst af þurrt, bjart og mjög næðingasamt – oft með næturfrostum. Heyskapur gekk sérlega illa fyrir norðan. Séra Jón dagbókarhaldari Jónsson á Möðrufelli í Eyjafirði greinir skilmerkilega frá heyfeng nær allan sinn búskapartíma – og varð heyfengur aldrei jafn lakur hjá honum og þetta sumar. Við gefum þessari merku tímaröð meiri gaum síðar. Nóvember var eini mánuður ársins sem virðist hafa fengið sæmilega dóma.  

ar_1802t

Þó Sveinn Pálsson hafi setið með brotinn mæli allt fram í miðjan nóvember reynir hann samt að segja okkur eitthvað af hitafari. Við fáum að vita hvort frost hafi verið á athugunartíma eða ekki og hvort sumardagur hafi verið kaldur eða hlýr. Á myndinni er reynt að koma þessum upplýsingum hans til skila á myndrænan hátt. Við sjáum vel þá daga sem hann telur hafa verið kaldasta (merktir -2 eða meira á vísikvarðanum til vinstri. Annars fær dagur með frosti töluna -1 að vetrinum – en hláka fær +1. Að sumarlagi segir hann allmarga daga hlýja – við merkjum hlýjan dag með +2, kaldan sem +1. Tveir hlýir dagar eru í maí – en enginn í júní og mestallan ágúst skiptast á kaldir dagar og hlýir. Jafnvel er frost á athugunartíma – frostnætur eru reyndar enn fleiri. Frá því um 20.september er oftar frost en ekki. – Síðan kemur hitamælir og við getum litið á kvarðann lengst til hægri á myndinni. Athugið að ekkert  beint samræmi er á milli hans og vísiskvarðans – nema að frostmark er á sama stað. 

Hér að neðan eru helstu heimildir um tíðarfar og veður á árinu. Ítarlegust er frásögn Minnisverðra tíðinda, samantekt Brandstaðaannáls er einnig góð, einnig er eitthvað hjá Espólin. Jón Jónsson á Möðrufelli og Sveinn Pálsson skráðu veður daglega auk þess að draga það saman viku- eða mánaðarlega. Mjög erfitt er hins vegar að lesa þessi handrit – og ekki víst að þau brot sem hér birtast séu rétt eftir höfð. Að vanda var talsvert um slys, menn drukknuðu og urðu úti, óljóst hvað tengist veðri. Lesa má um það í Annál 19.aldar.    

Ítarlegasta árferðislýsingin er í Minnisverðum tíðindum 1803: (s108-112, 114 hafís) Fyrri hluti árs (og aðeins lengra):

Um haustið [1801] var í Barðastrandarsýslu eins og víðast hvar annarsstaðar, allbærileg veðrátta, þó nokkuð vindasöm og óstöðug, en um nýársleytið 1802 umbreyttist hún til kafalda og blota. Strax í fyrstu blotum tók hreint fyrir alla jörð, sem ekki kom til gagns upp fyrr enn í maímánuði. Um sama bil féll veturinn á Ísafjarðarsýslu og var hann þar (eins og um allt land) hinn harðasti, sem menn til mundu, og vissulega harðari og lengri en nokkur á hinni umliðnu 18. öld. Í Strandasýslu lögðust harðindin sumstaðar á með jólum, en allstaðar með þorra og svo geysilegum snjóþyngslum, óminnilegum frostum og margföldum áfreðum, að hvergi sást hin allraminnsta vitund af jörð fyrir útigangspening, og seinast í maí var hún enn þá ekki til hlítar uppkomin; olli þessu að miklu leyti hafísinn, um hvern síðar mun greint verða.

Af því, sem hér er sagt er auðsagt, að vorið á Vestfjörðum mátti í þetta sinn heldur vetur nefna; komu þar sumstaðar ekki tún upp fyrr en undir venjulega sláttarbyrjun, hver veðrátta olli stöku gróðurleysi, og var undirrót fádæmalegs grasbrests á sumrinu 1802, frá hverjum næstu Tíðindum byrjar nákvæmlegar að skrifa. Á sama máta er það hér af augljóst, að þessi óvanalegu harðindi, ásamt undanfarið bágt árferði, hafa eins hér, sem annarstaðar, orsakað hallæri fólks á milli. Víðast hvar bönnuðu ísalög, hafísar og ófærð fólki sjóróður og kaupstaðarferðir, svo mjög fáir þannig gátu leitað bjargar sinnar. Alltsaman þetta var orsök í, að margir um vordaga 1802, flosnuðu upp í öllum Vestfirðingafjórðungi, og kvað það svo rammt að í Barðastrandarsýslu, að börn fóru þar að leita sér uppeldis á húsgangsflakki; var þá líka víðast hvar fé tekið að stráfella, en þótt flestir hefðu farið að skera á þorra, og síðan á ýmsum tímum, en hesta og kýr drápu menn þó sumstaðar niður. Svo bjargþrota fólk í þessum kringumstæðum varð hinum betur megnandi til þyngsla, olli að nokkru leyti þeirra tjóni, sem ekki höfðu hjarta til að sjá nauðstadda bræður allt í kringum sig deyja flokkum saman af hungri.

Veðráttan var í Norðurlandi stirð og og misjöfn frá veturnóttum 1801 fram til jóla, þó nokkru stilltari enn hinn fyrra vetur. Grimmastur skall þessi víðast á um nýársbil, og tók víðast alla jörð af upp til dala, sumstaðar fyrr, t.d. í Fljótum og Svarfaðardal. Í miðjum febrúar var jarðlaust það tilfréttist um allan Norðlendingafjórðung. Þó hafði í Húnavatnssýslu vetur nær því allt þangað til verið hvað skástur, og nóg jörð á svokölluðum Ásum fyrir hross og fé, en jarðskarpara til dala. Eins var lengi frameftir vetri allgóð útiganga í Blönduhlíð í Skagafirði, en dalir þar skyldu þó hafa verið undirlagðir jafnmeiru fannfergi en veturinn 1800 og 1801, svo að jörð, var bönnuð þar skepnum nú, sem hún þá var nóg; en þegar áleið, gengu harðindin eins almennt yfir í Skagafirði sem annarstaðar. Í Vaðla- og Þingeyjarsýslum urðu menn strax, öndverðlega á vetri, að taka bæði hesta og og fé inn á hey, og við það mátti víðast standa fram að (og sumstaðar fram af) sumarmálum; í einstöku stöðum kom þó jörð upp þann 30. mars. Framarlega í Eyjafirði var nokkru fyrr reynt til að hleypa hrossum út, en forgefins, þar þau vildu ekki standa á stundu lengur. Vorið var hér mjög hart og kalt, sem sérdeilis orsakaðist af óvenjulega miklum og langvarandi hafís, fylgdi þessum vorharðindum hræðilegur lambadauði yfir allt, var víðast hvar ekki fært frá fyrr en í 11. viku sumars [júlí], og urðu þá sumir að skera hvert einasta lamb, sem þeir áttu, sökum snjókyngju og gróðurleysis á afréttum. Þriðjudag í nefndri viku [6.júlí] var fyrst hleypt kúm úr fjósi í Fljótum. Hross nokkur féllu í Norðurlandi af hor og harðindum, og fátt sauðfé á einstöku stöðum. Að nú, þennan vetur og vor, sem hvorttveggja var þá harðara en hin nærst umliðnu, drápust færri skepnur en þá, olli fæð þeirra, þar flestir áttu ekki eftir nema þær hörðustu og útvöldustu skepnur, er ekki gátu týnst og fargast af hins fyrra árs harðindum; líka var heyaflinn 1801 (eins og hér að framan er sagt) sæmilegur, og hinn fyrri vetur hafði gjört bændur varsamari en áður með ásetningu skepna á sumarheyin. Vetrinum 1802 fylgdi hér hér gróður- og grasleysi, en bágindi fólks á milli, er voru því þyngri, sem ófærð og aðrar kringumstæður hindruðu velflesta frá vanalegum suðurferðum til sjóróðra og kaupskipakoma varð líka mjög sein.

Á Austfjörðum gnúði vetrarharkan á strax á veturnóttum [1801], með köföldum og snjóþyngslum; þó urðu þar ekki stórkostleg jarðbönn fyrr enn með jólaföstu, og síðan voru allir gripir á heyi, að kalla, fram yfir sumarmál. Fellir varð mikill á fénaði víðast hvar í Múlasýslum, þó mestur í Álfta-, Hamars-, Stöðvar-, Fáskrúðs- og Reyðarfjörðum. Sumarið byrjaði þar með stórviðrum og fannfergi; enda var þar lengst af kuldasamt, og fylgdi þar af grasbrestur í nokkrum sveitum, þó heyjavon væri allgóð í sumum mýrlendum hreppum um miðsumarsbil 1802.

Hér á Suðurlandi var veturinn ekki stórum betri en í hinum landsins fjórðungum, féll hann sumstaðar á upp til dala öndverðlega á jólaföstu – Í Skaftafellssýslum strax með veturnóttum – en í láglendum plássum og við sjóarsíðu, vart eftir nýár, hélt við með iðulegum kaföldum, blotum og frostum langt fram yfir sumarmál, og olli hér (einkum í Borgarfjarðar-, Árness- og Skaftafellssýslum) dæmafáum harðindum. Vorið var yfrið kuldasamt og þurrt, svo grasvöxtur varð á túnum og vallendi mjög seinn og bágur, en víða hvar á engjum og í mýrlendi góður. Miðvikudaginn í 14. viku sumars [28.júlí] var heysláttur almennt byrjaður í Kjósarsýslu.

Fyrir skömmu nefnda ég hafís þann, sem á öndverðum vetri umkringdi Vestfjarða-, Norðurlands-, og Austfjarða-strandir. Sérdeilis kom mikill ís fyrir allar Vesturstrandir, og með honum 2 bjarndýr, af hverjum annað kom á land í Trékyllisvík, og var, eftir nokkurra daga dvöl í fiskihjöllum, lagt að velli, urðu menn þó þar varla varir við nokkurn trjáreka, er ísnum fylgdi. Héðan fór hafísinn um höfuðdag 1802. Um Jólaleytið 1801 sást hann frá mörgum stöðum í Þingeyjar-, Vöðlu- og Hegranessýslum, en litlu fyrr frá Vopnafirði og Langanessströndum, og skömmu seinna umkringdi hann öll annes í Norðlendingafjórðungi og nefndum byggðarlögum. Þann 14. ágúst 1802 fór ísinn fyrst burt af Skagafirði, um sömu daga af Húnafirði, en fullri viku síðar af Eyjafirði. Þá björg, sem Skagfirðingar eru vanir að hafa af fuglaveiði og eggjatekju kringum og á Drangey, samt fiskiafla og sérdeilis hákarlsveiðar, fyrirmunaði og bannaði ísinn algjörlega. Líka tálmaði hann mikillega komu danskra kaupskipa, svo 2 af þeim náðu ekki Eyjafirði fyrr en þann 29. ágúst, og urðu þó þangað skipa fyrst; hafði annað þeirra átt langa og harða útivist í 17 vikur, og verið 14 daga blýfast í hafís fyrir framan Langanes. Fáum dögum áður komu 6 Norðurlandsskip inn að Hrísey á Eyjafirði, en komust þá ekki lengra fyrir jökum. Eitt af Spákonufellshöfða skipum varð, vegna hafíss, að fara inn á Vopnafjörð og létta þar af sér farmi, sem að mestu leyti var innifalinn í matvörum, og sigldi þaðan heim aftur til Kaupmannahafnar.

… (s121) Síðan varð í Norðurlandi þann 12. janúar 1802 vart við jarðskjálfta, sem þó hvergi orsakaði húshrun eður viðlíkan skaða.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Varð mikið neyðarár. Á sunnudaginn 29. janúar hlóð niður stórfönn í sunnanhríð. Kom þá fé á gjöf. 17. hleypti bloti í gadd, og komu þá öll hross á hús og hey. Ísinn rak þá fast að landi. Á Pálsmessu [25. janúar] og í miðþorra [um 5. febrúar] voru mestar hríðar og fannalög orðin mikil. Í Holti [þar sem faðir annálsritans bjó] var 15 faðma langur snjórangali í brunninn. 25. febrúar gjörði mikinn vatnshríðarblota, hleypti í krapi, og þar ofan í norðanhríð með bitru frosti, sem bræddi yfir og svellaði allt. Aftur blotaði 10. mars allmikið, en vann (s40) ei á, og svo í marslok. Veður sífellt frosta- og kafaldasamt.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Fyrir páska [18.apríl] gjörði hláku, er vann ei á utan hnjóta móti vestri, en páskadagana, 18.-19. apríl, var mesta vestan fannkomuhríð, svo ei var éljaskil 4 dægur. Skafhríðin var eins á þriðja. Var þá sú fönn komin mót austri, að enginn hafði séð því líka. Ennþá var á sunnudag, mánudag og þriðjudag fyrsta í sumri [25. til 27.apríl] sífelld norðanhríð með fannkomu og brunafrosti. Fór þá að bera á heyleysi og treiningi. Lifðu þá víða hross við lítið. Síðan bjartviðri með hörkufrosti. Sást þá ei munur á hafi og jörð, hæðum og dalverpi, brekkum, giljum og brúnum. Allt var slétt, yfir þakið með harðan snjó, svo sleðafæri var hið besta, en bágt var orðið að fá hey við þessi ódæmi. 2 maí kom mikil hláka í 5 daga. Urðu vandræði mestu að verja hús og bæi, er allt var sokkið í gaddinn, ásamt litlu heyi í tóftum, fyrir vatnsgangi, þá allt neðra hljóp í krap, en náði ei framrás utan með miklum skurðum og mokstrum. Við þetta komu aðeins upp litlir jarðarrindar mót vestri, en enginn móti austri. Eftir það hjarnaði aftur, en úr því lifðu hross og sauðir, sem vel gátu borið sig. Þokur, frost og slyddur gengu út maí. Rýmdi mest um jörð að neðan af rennsli og jarðvarmi. Á þeim tíma var hestum vart við komið, því gaddur var holur, þó svell sýndist yfir. Samt tók upp nokkuð með köflum, svo í fardögum sá á 3 þúfur í Gaflsvelli.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

… í fardögum sá á 3 þúfur í Gaflsvelli. Þá gjörði drápshríð mikla. Stóð þá sumstaðar fé málþola inni, en þar hey var eftir, gekk það nú upp, því margir voru þá þrotnir. … Eftir hvítasunnu [6.júní] fóru ær algjörlega út og í 8. viku sumars [10. til 16.júní] var brú á Blöndu og ís á vötnum öllum og ýmsum ám. (s41) … Loks var fært frá eftir Maríumessu [2.júlí], lömb setin, aldrei rekin á fjall. Kýr, sem gefið varð, fóru út í miðjum júní. Þá linnti fyrst frostum og kulda. Hross og sauðir stóðu við um 15-16 vikur. Miklar skemmdir urðu á úthaga við vatnsgang og flóð 15.-17. júní. Annars tók aldrei upp gadd í giljum og austan undir brekkum og Hrafnabjargartúni allt sumarið. Jörð á heiðum og fjallendi fúnaði til skemmda og tapaðist þar gras og kvistur, en varð upptök að foksandi. Jökulbreiður voru yfir öll fjöll og hafísinn fór í ágústlok. Grasleysi var hið mesta. Sláttur byrjaði í 15. viku sumars [29.júlí til 4. ágúst]. Þá var þurrkatími, nýting besta, en heyafli hinn minnsti. Skást var sinumýrlendi mót vestri og deiglend tún. Við heyskap var verið til jafndægra, þar sinureytingur fékkst. Ekki kom frostlaus nótt til fjalla. Snemma i september 3. daga hret. … Grasfengur varð lítill, um mitt sumar einasta. (s43)

Geir Vídalín fjallar um tíðina í bréfi:

Lambastöðum 30. september 1802 (Geir Vídalín biskup): Veturinn sem leið var sá harðasti yfir allt land, sem nokkur man, og líklega síðan hvítavetur [1633]. Vorið sambauð honum, svo enn nú um Jónsmessu var Mosfellsheiði alls ófær fyrir snjó. Sumarið þurrt, svo hér hefur ekki verið regn yfir 3 daga. Á túnum og harðvelli hefur grasbrestur verið, víðast allt til helminga, en mýrar spruttu vel síðast, svo í Flóa og Ölvesi skal vera ágætlega heyjað, en báglega til fjalls. Haustið hefur verið gott, allt til þessa, en afli mjög lítill hér um pláss. (s29)

Gytha Thorlacius sýslumannsfrú á Eskifirði segir frá í endurminningum sínum (Erindringer fra Island):

Det følgende Foraar (1802) var meget strængt. Ved Paaske kom „den grønlandske Haviis“, der medfører en overordentlig Kulde, og kuer alle Væxter, saa at Foraar og Efteraar synes at ville reekke hinanden Haanden, og ganske udelukke den længe med Længsel forventede korte Sommer. Den dannede en Bro flere Mile ud i Havet, og endnu ved St. Hansdag bespændte den Eskefjord. Dog var der smale Aabninger mellem Isen, gjennem bvilke man med Forsigtighed kunde seile.(s15)

Í lauslegri þýðingu: „Eftirfarandi vor (1802) var mjög hart. Grænlandsísinn kom um páska. Með honum kemur yfirgengilegur kuldi sem kvelur allan gróður þannig að vor og haust virðast takast í hendur og algjörlega útiloka hið langþráða stutta sumar. Ísinn myndaði brú fleiri mílur (dönsk míla er rúmir 7 km) á haf út og á Jónsmessu fyllti hann enn Eskifjörð.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

1. október gjörði nær því vikuhríð með stórfenni, svo vatnsföll voru lengi ófær og vegir ófærir. Með vetri tók það vel upp og varð gott í nóvember. Með desember hríð og harðviðri. Jörð varð vel notuð til nýárs. (s42)

Frásögn Minnisverðra tíðinda heldur áfram í  2. tölublaði (s224-232):

Með tilliti til veðurlags og árferðis, var meirihluti sumarsins 1802, á Suðurlandi mjög kaldur, eins og vorið verið hafði, svo frost og snjóar gengu hér, sérdeilis nálægt fjallbyggðum, í miðjum júlímánuði, einkum þann 19. þess mánaðar, þá verulegt kafald gjörði. Víðast hvar var, eins og áður er ádrepið, grasvöxtur mjög bágur, nema á fáeinum mýrlendisjörðum, einkum í Kjósarsýslu, hvar hann var í betra lagi, en hreinveðurs vegna mestan parts sumars varð nýting hin besta. Um haustið, nálægt Mikaelsmessu, gjörði fáheyrða frosta- og snjóa-skorpu, á þeim árstíma, með geysilegum kafaldshríðum, er urðu nokkrum mönnum að bana. Afleiðingar þessa veðrabáls urðu þó ekki fénaði svo banvænar, sem fólk í fyrstu uggði, því góð og bráð hláka fylgdi honum á eftir.

Um árferði til lands á þessum tíma, gengu misjafnar fréttir úr þeim víðlenda Vestfirðingafjórðungi: Í Mýrasýslu tjáðist grasvöxtur víðast hvar sæmilegur, og nýting hin besta. Í Snæfellsesssýslu heyafli í minna lagi. Í Dalasýslu hermdist sumarið mjög kalt, svo að þær nætur voru fleiri, sem fraus, jafnvel í byggð, og stundum varð svo mikið fjúk og frost um hádag, að varla var vinnufært úti. Þessi harða sumarveðrátta varaði allt til haustjafndægra; grasbrestur var hinn mesti á túnum, og þau til stórskemmda kalin. Vott útengi spratt nokkuð, en allt harðlendi var svo að segja graslaust. Það lítið, sem fékkst af heyjum, nýttist þó bærilega, en horuð málnyta gjörði lítið gagn. Fyrrnefnt Mikaelsmessukast geisaði hér, eins og í nálægum sýslum, með mestu snjókomu; urðu þá sumstaðar töluverð hey úti, og komu síðan að litlu liði; misstist einnig sauðfé nokkurt. Í Barðastrandarsýslu féll heyskapur út miklu betur, en menn áður gátu ímyndað sér, er mest orsakaðist af æskilegustu veðurátt, er gekk þar mestan hluta sumars, og stöðugum þurrkum frá sláttarbyrjun, svo heyja nýting varð þar hin besta. Í Ísafjarðarsýslu fylgdi aftakshörðu vori – svo að ísalög ekki tóku af jörðum, fyrr en eftir messur, hver svo höfðu verið samföstuð orðin, að eftir kóngsbænadag [14.maí] urðu fiskiskip að setjast úr Vatnsfirði á ísi útá Snæfjallaströnd, nær því þingmannaleið vegar – kalt og þurrt sumar, með náttfrostum og grasleysi, hafís fyrir Ströndum og stórköföldum við sjóarsíðu, einkum seinni part ágústmánaðar, með fannfergi og bitrum frostum; áttu þá margir hey úti; en skömmu seinna leysti snjóinn upp, og varð því þá að nokkru leyti heimkomið. Úr Strandasýslu fluttust sorglegar fréttir um veðráttufar sumars þessa: frost og kuldi og snjór er sumstaðar lá á túnum fram á engjaslátt, hindraði grasvöxtinn svo, að hann varð loksins óvenjulega lítill, og norðarlega víða nær því enginn, þar eftir fór heyskapurinn í þokum og votviðrum, enda var ljár óviða borinn á gras utangarðs, nema sinuforæði, þar til þeirra náðist, og urðu þesskonar heyföng mjög léttvæg. Óvenjulegt kafald og hörkufrost sem innféll frá 17. til 20. júlí, neyddi nokkra í Árnessókn til að gefa kúm og sauðfé fisk til fóðurs, eins og menn víða hvar, á næsta gegnum harða vetri, höfðu, af heyskorti, gefið peningi sínum, til lífsbjargar, harðan fisk, hákarl, hval og lýsi, og jafnvel mjólk. Um Mikaelsmessu [29.september] féll aftur snjór mikill, og byrgði hey, er víðast úti lá, svo það aldrei síðan náðist, nema vott og freðið uppbarið úr klaka. Hláka sú er fylgdi kasti þessu á Suðurlandi, varð hér að engum notum.

Í Norðurlandi fylgdi hörðu og gróðurlitlu vori, kalt og óveðrasamt sumar, heyjabrestur og bág nýting. Í Þingeyjarsýslu var einkum graslendið stakt, og veðráttu harka ekki minni, svo sumarið var sannkallaður vetur. Gekk þá staðföst norðan átt, hörku krapahríðir og áfelli á víxl, en aldrei náttúrlegt sumarregn eða landvindar, að undantekinni einni viku, samantöldu öllu þessu sumri. Peningur var þar mjög gagnslítill sumarlangt, og hafís allsstaðar landfastur til höfuðdags (29.ágúst). Heyafli samsvaraði þessu, svo á einni, annars sæmilegri, jörð, fegnust t.d. eftir 4 sláttumenn, einungis 100 hestar af moðsalla. Norðurpartur sýslunnar var þá um haustið gjörfalinn að nautpeningi, og öll matvara útfeld í Húsavíkurkaupstað seinast í september, þá fæstir höfðu fengið svo mikið sem þörf krafði.

Austfjörðum viðvíkjandi, var sumar þetta í Norður-Múlasýslu, eins og næst undanfarið vor og vetur, eitt hið harðasta í elstu manna minni. Í norðurhluta hennar greru ekki tún og úthagi fyrr en eftir miðsumar, sökum sífelldra stórhríða og hörkufrosts, nálega dag sem nótt. Grasvöxtur varð því mjög vesæll, svo fáir fengu meira hey enn naumlega til kúnna, til hvers heyafla í þeim fjársveitum þykir lítið koma – og urðu margir því að skera þær, sér til stórs skaða. Með Mikaelsmessu gjörði hér, sem annarstaðar um land, mikið áfelli, varð þá að mestu leiti jarðlaust, og undir snjónum það lítið er laust var af útheyi, einkum í Vopnafirði, norður um Strandir og Langanes. Heyleysið, og hið harða haustáfelli, gjörði, að margir förguðu flestu eftirlifandi fé sínu, bæði í kaupstað og heima, jafnvel þó lítið frálag væri í því, þar flest ekki var betur en mergjað, og svo kvað rammt að á einum bæ, hvar slátrað var 30 fullorðins fjár, meðal hvers 10 sauðum gömlum, að ekki fékkst úr öllu því fullt kvartil tólgar. Í Suður-Múlasýslu, hvar vorið hafði verið sömu artar, kom varla daggardropi úr lofti sumarið út, heldur nokkrum sinnum krapi og snjór, með sífeldum sterkum landnyrðingum, oft heitu sólskini um daga, en hörðu frosti um nætur. Grasbrestur varð því hér stór og nýting hin versta; varð því, ofaná hinn stórkostlega sauðafjárfelli veturinn fyrir, fólk að skera niður fjölda kúa um haustið.

Veðráttu vetrarins til jóla lýsa Minnisverð tíðindi í umfjöllun um árið 1803 (innan um afgang vetrarins). Við birtum þá frásögn í pistli „af árinu 1803“. 

Espólín: XCI. Kap. lýsir árinu svo:

Með veturnóttum [1801] lagði þegar að vetur mikinn fyrir norðan og austan land, og helst eystra, og jafnvel syðra, með hríðum og snjóaþunga, öndverðlega á jólaföstu, en með nýári gnúði hann á víðast um allt land, og var hinn harðasti, tók fyrir jörð alla í hinum fyrstu blotum, og kom víða ei upp aftur fyrr en hálfur mánuður var af sumri [í maí]; gengu blotarnir allan veturinn milli hverrar hríðar; enginn maður mundi þá jafnharðan vetur og langan. Var jarðlaust í Strandasýslu, og kom ei upp til hlítar fyrr en mánuður var af sumri, svo var og víðar. (s 121). Bönnuðu ísalög, hafísar og ófærðir, bjargir allar, og flosnuðu margir upp vestra. Í dölum öllum norðanlands var jarðbann mikið, en þó best í Húnavatnssýslu, en í Eyjafirði voru harðindi mikil, og norður þaðan frá. Eystra var engin jörð fram um sumarmál, svo var og víða syðra, helst í Borgarfirði, Árnessþingi og Skaftafellsþingi. (s 122). Hafísar miklir lágu fyrir landi vestan, norðan og austan, og komu á þeim tveir birnir vestra, var annar unninn í Trékyllisvík. Var þá hinn mesti vorkuldi með hríðum, og aldrei hlýnaði á því sumri eftir, svo telja mætti, og spratt mjög illa, en fiskitekja var sumstaðar, og eigi síst fyrir norðan, og mikil síldarganga á Eyjafirði. (s 122). Hvali rak víða fyrir norðan. (s 122).

Jón Jónsson á Möðrufelli er nokkuð langorður um veður og tíð á árinu – en ritstjóri hungurdiskar ræður illa við lestur á hönd hans (þó hún sé hér skýrari en oft var síðar). Við reynum þó að ná orði og orði á stangli.

Janúar var allur mjög harður vegna jarðbanna, tvo blota gerði. Febrúar allur mjög harður og allstaðar jarðbönn. Mars einnig harður – mest af jarðbönnum. Apríl á sama hátt, sólbráð nokkur, en líka hríðar og snjókoma. Um miðjan maí segir Jón að almenningur sé kominn í allra stærstu nauð því margur sé uppiskroppa orðinn. Júní var sárbágur og júlí ogso mjög bágur, ágúst kaldur. Október oftar harður og stirður en þó komu góðir kaflar í bland en 2 áhlaupastórhríða. Nóvember allur mikið stilltur og góður að veðráttufari. Desember í meðallagi, (ástöðuveður sæmilegt oftast), jörð nokkuð óskemmd í rót. Að lokum segir hann að þetta afliðna ár megi teljast fullkomið harðindaár.

Svipað er með það sem Sveinn Pálsson skrifar. Hér eru sundurlausir punktar frá árinu 1802:

Þann 9.janúar jöklafýla, 20.janúar snjór í mið læri. Þann 31.mars getur hann um vatnsflóð og mikið hafi þiðnað daginn áður. Um vikuna 9. til 15.maí skrifar hann (lauslega þýtt hér úr dönsku): Þessa viku mikið frost, kuldi. Norðan og norðaustanblástur. [Þjórsá ennú á gaddís]. 25.maí Blátt mistur í austri, 31.maí Eldmistur í austri. Þann 5. júní segir af rekís vestur fyrir (Reynis)Dranga að landi og meðfram ströndinni til vesturs. Sömuleiðis milli Eyja og lands. 10. júní. Rekís með allri ströndinni. Næturfrost þann 25.júní og þann 29. segir hann að frosið hafi á vatni í nótt. Þann 3.júlí snjóaði í fjöll. Þ.19. segir hann (eftir fréttum kannski – en 28.segist hann þó hafa komið heim að sunnan) að alsnjóa hafi orðið í sjó á Kjalarnesi. Þann 24.júlí segir hann um undangegna viku að fyrst hafi verið mikill kuldi og snjór síðan mildara veður (snjó hefur þó varla fest í Kotmúla). Þurrt var flesta daga í ágúst, en oft ryk og kólga. Talsvert næturfrost gerði nótt eftir nótt um 20.ágúst. 10.september segir hann að vötn hafi spillst af frosti. 29.nóvember var sterk jöklafýla. 22.desember ofsaflóð.

Hér stingur Jón Hjaltalín upp á nafni á veturinn:

Blota fanna sendir sá

svells um hvanna reita,

lýsing fanna liðinn á

Lurkur annar heita.

Þórarinn í Múla er efnislega sömu skoðunar í sínum vísum og líkir sumrinu við meðalvetur:

Lurkur títt um landið vítt

lék í þjóð-minningum

þessi par ei vægri var

vetur, að fanna dyngjum.

Harðindin og hafviðrin

hótuðu grimmum dauða

væri heyja-aflinn ei

eins til hesta og sauða.

Þorri og góa með þungum snjó

þegar niður hlóðu

hafís-þök með hörku blök

hring um landið tróðu.

Ærsli hríðar enn nú stríð

einmánuður þreytti

ekki hót á böli bót

byrjað sumar veitti.

Á út-kjálkum óárs bálk

allt fram dró að messum

engin jörð en áföll hörð

oft á tíma þessum.

Vetrartíðin var óblíð

vorið snautt af góðu

misseri heilt við hey óveilt

hestar víða stóðu.

Sumarið allt var sára kalt

sinnti ei högum betur,

enn meðal ára margur klár

mildur og góður vetur.


Haustið eins var mjög til meins

mengað fjúka rokum

heyaflinn var harðsnúinn

harla rýr að lokum.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1802. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér – mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur í viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir