10.3 C
Grindavik
29. september, 2022

Af ástum og bolludagsraunum vinnusjúklings

Skyldulesning

Véfréttin um ValentínusDagur elskenda nálgast með ógnarhraða og sennilega næ ég því ekki að komast á séns á tæpri viku í allri þessari hálku. Ég leitaði á náðir véfréttarinnar sem sagði mér það sem ég vissi svo sem nú þegar. Frábæru, gáfuðu og skilningsríku kettirnir í Himnaríki sögðu mér að láta ekki hugfallast, þeir myndu elska mig til eilífðarnóns svo lengi sem ég gæfi þeim annað slagið almennilegt kattanammi. Drengurinn hefur tekið nánast í sama streng en meira þó í áttina að Eldum rétt-kvöldmat en kisunammi.

Ég er orðin frekar ringluð (og ryðguð) í þessum svokölluðu ástamálum. Það næsta sem ég hef komist einhverju slíku lengi, lengi, kom í morgun í formi Instagram-skilaboða frá útlendum aðdáanda: „Halló, glæsilegt!“ (Hún var kölluð þetta) og svo var mynd af honum berum í sturtu, myndin náði þó bara niður að mitti. Þrátt fyrir nánast sorglega siðsamlega mynd er hún þó það allra dónalegasta sem ég hef fengið sent af þessu tagi frá því að veraldarnetið hóf starfsemi sína.

Flagð undir fögruAnnaðhvort óttast karlar mig, hart blikið í augunum, herptur handavinnupoka-munnsvipurinn (sjá mynd) og þora ekki að senda mér dónalegar myndir af sér, eða ég er ekki í markhópnum vegna aldurs, menntunar, hárlits, skóstærðar, búsetu, kattaeignar, staðsetningar á hæð í húsi, starfs, gönguferðahaturs míns eða hrifningar á miklum sjógangi, eitthvað af þessu kemur til greina.

Það eru stórkostlega yndislegir menn úti um allt, langflestir giftir vinkonum mínum og dætrum þeirra, eins og ég hef löngum sagt, hinir hangsa mögulega í ávaxta- og grænmetisdeildinni í Einarsbúð og hafa ekki hugmynd um að ég hringi reglulega einmitt í Einarsbúð, panti og láti senda mér heim … í hálkunni sem mér er frekar illa við, eins og marga grunar eflaust. Fínir kvenbroddar kæmu mér sennilega, eiginlega mjög líklega, á séns fyrir þann fjórtánda en það er samt of mikið að gera hjá mér, eins og lesa má út úr efstu myndinni. Sjáum til að ári. 

Annars er mér nokk sama um Valentínusardaginn, það er konudagurinn sem vekur spennu hjá mér (og bolludagurinn) eða öllu heldur konudagskakan. Verða hnetur (möndlur, döðlur, rúsínur, núggat) í konudagskökunni eða verður hægt að borða hana í ár? Jafnvel þótt ég sé og hafi verið í nokkuð strangri sykurminnkun frá áramótum finnst mér þetta alveg jafnspennandi og fyrri ár.

BernhöftsÞó hefur þroskinn sem ég hef komið mér upp á síðustu árum valdið því að étanleg kaka orsakar gleði, þá get ég keypt hana (og allir aðrir líka) en … ef hún er með hnetum og því öllu, þá gleðst ég yfir því að fitna ekki á meðan. Gaman væri að sjá sölutölur á milli m/ hnetum og án. Bestu tertuna frá upphafi eiga Siggi og Bernhöftsbakarí, hvítsúkkulaði-dásemd sem var hættulega góð. Ég handjárnaði sjálfa mig við ofninn í stofunni í nokkra sólarhringa til að hlaupa ekki út í bakarí og kaupa aðra, minnir mig. Mér hefur svo sýnst á auglýsingum frá þessu góða bakaríi að þar séu til rjómabollur alla daga.

Mikið er ég ofboðslega fegin því að búa hinum megin hafsins og líka því að það sé hálka megnið af árinu því Kallabakarí hér á Skaga er lúmskt fullt af freistingum. Sennilega myndi ég skríða báðar leiðir þangað eftir bollum einu sinni í viku. Skríða þó langar leiðir til að fá góða hreyfingu svo bolluátið hafi ekki allt of mikil áhrif á útlínurnar. Hvenær er eiginlega bolludagurinn?


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir