Afkastamiklir fjársvikarar handteknir – Sviku 12 milljarða út úr eldra fólki – DV

0
105

Tælenska lögreglan hefur handtekið 21 meðlim glæpagengis sem einbeitti sér að því að svíkja fé út úr eldra fólki. Er talið að fórnarlömbin séu 365 talsins, öll frá Bandaríkjunum og öll yfir sextugu. Eru glæpamennirnir sagðir hafa gefið sig út fyrir að vera lögreglumenn sem væru að rannsaka peningaþvætti. Með þessu tókst þeim að svíkja sem nemur 12 milljörðum króna út úr fólkinu.

People segir að lögreglan hafi lagt hald á 162 bankareikninga, fjölda fasteigna, 61 farsíma, tvo bíla og skammbyssu.

Það var netglæpadeild tælensku lögreglunnar sem stóð fyrir aðgerðunum í kjölfar upplýsinga sem bárust frá bandarísku alríkislögreglunni FBI og bandarískum leyniþjónustustofnunum.

Glæpamennirnir notuðust við símaver til að hringja í fólk og þykjast vera lögreglumenn að rannsaka peningaþvætti. Þeir sögðu fólki að bankareikningar þess væru grunsamlegir og að það þyrfti að flytja fé af þeim rafrænt yfir á aðra reikninga til að hægt væri að staðfesta uppruna þess. Þeir brutust einnig inn í tölvu sumra fórnarlambanna og notuðu tölvuveirur til að ná stjórn á þeim að sögn Bangkok Post.

Peningarnir voru síðan hvítþvegnir með því að senda þá í gegnum gullverslanir, veitingastaði og ýmis afþreyingarfyrirtæki í Taílandi.