Afkastamiklum sæðisgjafa skipað að láta af athæfinu – Talin hafa feðrað á bilinu 550-600 börn og neitaði að hætta – DV

0
113

Dómstólar í Hollandi hafa tekist á við heldur óhefðbundið mál. Um er að ræða karlmann sem hefur feðrað rúmlega 550 börn með sæðisgjöfum. Dómstólar hafa nú gert manninum að hætta að gefa sæði.

Maðurinn hefur verið nefndur Jonathan M í hollenskum fjölmiðlum og er hann 41 árs að aldri. Samtök sem hafa það að markmiði að vernda réttindi barna getin með gjafasæði sem stefndu manninum ásamt móður eins þeirra barna sem maðurinn er sagður hafa feðrað með sæði sínu.

Samkvæmt hollenskum viðmiðunarreglum má sæðisgjafa ekki feðra meira en 25 börn í 12 fjölskyldum en dómarar bentu á að þessi tiltekni maður, Jonathan M, hafi aðstoðað við að koma á bilinu 550-600 börn í heiminn með erfðaefni sínu, en hann gaf fyrst sæði árið 2007.

Hefur manninum nú verið bannað að gefa sæði sitt með hefðbundinni sæðisgjöf og eins er honum meinað að hafa beint samband við fjölskyldur í leit að sæðisgjafa. Brjóti hann gegn þessu banni á hann yfir höfði sér 15,3 milljón króna sekt fyrir hvert brot.

Óglatt þegar hún hugsar um afleiðingarnar Móðir eins barnanna í málinu, sem gengur undir nafninu Eva, segist þakklát dómstólum að hafa stöðvað manninn frá „fjöldagjöfum sem hafa dreit sér eins og villieldur um önnur lönd.“

Hún sagði að hefði hún vitað að hann hefði feðrað rúmlega hundrað börn hefði hún aldrei valið hann sem gjafa.

„Þegar ég hugsa um afleiðingarnar sem þetta gæti haft fyrir barn mitt verður mér óglatt. Fjöldi mæðra hafa sagt honum að hann verði að hætta, en það breytti engu. Svo að fara með þetta fyrir dóm er eini valkosturinn sem ég hef til að vernda barn mitt.“

Rúmlega 100 barna, getin með sæði Jonathan M, fæddust á hollenskum heilbrigðisstofnunum og önnur fæddust á einkastofnunum. En hann hefur einnig gefið sæði sitt til dansks fyrirtækis sem hefur svo sent sæði hans til fjölda landa.

„Sæðisgjafinn vísvitandi gaf væntanlegum foreldrum rangar upplýsingar um fjölda barna sem hann hafði áður feðrað,“ sögðu dómstólar.

„Allir þessir foreldrar þurfa nú að horfast í augu við að börnin í fjölskyldum þeirra eru hluti af gífurlega stóru erfðamengi, með hundruð hálfsystkina, án þess að hafa samþykkt það.“

Fjöldi barna víða um heiminn Dómstólar töldu líkur á að þetta gæti haft neikvæð áhrif á börnin, þar á meðal andleg og eins valdið ótta um mögulegt sifjaspell.

Verjandi mannsins sagði fyrir dómi að Jonathan hafi hreinlega viljað hjálpa foreldrum sem gætu annars ekki átt börn.

Fjölmiðlar greina frá því að fyrst hafi verið varað við Jonathan, sem er sagður tónlistarmaður, árið 2017. Þá hafi hollensk samtök kvensjúkdómalækna bent á að hann hafi minnst feðrað 103 börn í Hollandi hjá tíu ólíkum fyrirtækjum. Hann hafi þá verið settur á svartan lista en engu að síður haldið áfram að gefa sæði, nema nú í Danmörku og í Úkraínu. Hann hafi eins boðið þjónustu sína í gegnum netið.

Þetta er ekki fyrsta málið af þessu tagi sem vekur athygli í Hollandi. Árið 2020 var látinn kvensjúkdómalæknir sakaður um að hafa feðrað minnst 17 börn með konum sem töldu sig vera að fá sæði frá nafnlausum gjöfum. Ári áður kom í ljós að læknir í Rotterdam hafði feðrað minnst 49 börn með konum sem leituðu til hans eftir frjósemisaðstoð.