2 C
Grindavik
7. maí, 2021

Áfram þörf fyrir bóluefni AstraZeneca

Skyldulesning

Sóttvarnalæknir segir engan vafa leika á því, þar sem kórónuveirufaraldurinn sé enn víða útbreiddur í Evrópu og borið hafi á fjölgun smita hér á landi, að það sé áframhaldandi þörf fyrir bóluefnið frá AstraZeneca, þrátt fyrir að tilvik óvenjulegra blóðtappa í kjölfar bólusetninga hafi komið upp. 

Þetta kemur fram á vef landlæknis. 

Þar segir, að fram hafi komið tilvik óvenjulegra blóðtappa í kjölfar bólusetningar með Covid-19 bóluefni frá Astra Zeneca. Tekið er fram, að atvikin séu sjaldgæf (25 tilkynnt atvik þegar 20 milljón skammtar höfðu verið notaðir í Evrópu) en alvarleg.

Mikilvægt að leita til heilbrigðisþjónustu ef óvænt einkenni koma fram

„Flest atvikin hafa verið hjá konum undir 55 ára aldri og hjá a.m.k. hluta sjúklinga hafa fundist mótefni gegn blóðflögum sem þekkt er að tengist blóðtöppum af þessu tagi. Enn er verið að rannsaka hvort um eiginleg orsakatengsl sé að ræða og eins hvort einhverjir ákveðnir þættir er varða heilsufar þeirra sem þarf að bólusetja nýtist til að spá fyrir um hættuna á þessum atvikum. Hingað til hafa flest atvik komið fram 3-10 dögum eftir bólusetninguna. Mikilvægt er að leita til heilbrigðisþjónustu ef óvænt einkenni koma fram skömmu eftir bólusetningu óháð bóluefni sem notað var, s.s. skyndileg mæði, óvenjulegir verkir, t.d. í höfði, brjósti, kvið eða útlim eða óútskýrðar blæðingar, þ.m.t. húðblæðingar,“ segir í tilkynningu frá sóttvarnalækni.

Ávinningur af notkun þess meiri en áhætta

„Þar sem faraldur Covid-19 er útbreiddur í samfélaginu víðast hvar í Evrópu og borið hefur á fjölgun smita hérlendis undanfarið, leikur enginn vafi á því að áframhaldandi þörf er fyrir þetta bóluefni og að ávinningur af notkun þess er meiri en áhætta. Ekki hefur borið á blóðtöppum af þessu tagi hjá öldruðum einstaklingum í Bretlandi þar sem mikill fjöldi hefur verið bólusettur og áhrif bólusetningar hjá þessum aldurshópi á smittíðni, innlagnir og dauðsföll vegna COVID-19 hafa verið góð í Englandi og Skotlandi. Því hefur verið ákveðið að nota þetta bóluefni fyrir einstaklinga eldri en 65 ára í samræmi við þessar niðurstöður,“ segir ennfremur. 

Þá kemur fram, að yngri einstaklingum sem ekki hafa fengið alvarlegar aukaverkanir eftir fyrri skammt muni líklega geta klárað bólusetningu með sama bóluefni. Þeir sem fengið hafa alvarlegar aukaverkanir, óháð bóluefni, gætu þurft að seinka seinni skammti eða skipta um bóluefni, og mögulega sleppa seinni skammti ef aukaverkun sem fram kom er alger frábending gegn Covid-19 bólusetningu.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir