2 C
Grindavik
8. mars, 2021

Áfram tíu manna samkomubann en sundlaugar opna

Skyldulesning

Samkomubann mun áfram miðast við tíu manns til 12. janúar með nýjum sóttvarnareglum sem taka gildi á fimmtudag. Verslanir munu þó geta tekið við fimm manns á hverja tíu fermetra, mest hundrað manns, og þá verður sundlaugum heimilt að opna.  

Þetta kynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi fyrir utan Ráðherrabústaðinn nú í morgun. 

Líkt og áður segir munu aðgerðirnar sem taka gildi næsta fimmtudag 9. desember gilda í rúman mánuð, eða til 12. janúar, sem Svandís sagði óvenjulangan tíma. Hingað til hafa aðgerðir iðulega gilt í tvær til þrjár vikur í senn. 

Auk breytinga á fjöldatakmörkunum í verslunum munu veitingastaðir geta tekið á móti fimmtán manns og þá verður þeim heimilt að lengja opnunartíma sinn til 22. Ekki verður þó heimilt að taka við nýjum viðskiptavinum eftir klukkan 21.

Sund- og baðstöðum verður einnig heimilt að opna á ný fyrir allt að 50 prósent af leyfilegum hámarksfjölda staðanna. Svo virðist sem ekki sé gert ráð fyrir opnun líkamsræktarstöðva en ráðherra minntist ekki á slíka starfsemi fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag. 

Fréttin verður uppfærð.

Innlendar Fréttir