„Svæðið er síður en svo til fyrirmyndar en ég heyrði í framkvæmdastjóranum nýlega og hann vill gera þarna mikla bragarbót. Ég hef hugsað mér að skoða svæðið og kynna mér starfsemina,“ segir Líf Magneudóttir, formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar.
Morgunblaðið greindi í vikunni frá óánægju íbúa í Laugarnesi með starfsemi Vöku við Héðinsgötu. Hafa þeir kvartað undan hávaða- og sjónmengun og auk þess viðrað áhyggjur af mögulegri olíumengun á svæðinu. Fyrirtækið hefur sótt um tímabundið starfsleyfi.
Á mánudaginn kemur Líf á fund Íbúaráðs Laugardals og upplýsir hvar mál Vöku er statt í kerfinu. „Það verður forvitnilegt að heyra sjónarmið fólks í íbúaráðinu og ræða mögulegar lausnir á þessu millibilsástandi,“ segir hún.
„Mín persónulega skoðun, og hún er kannski óvinsæl, er að neyslusamfélagi okkar fylgir úrgangur, endurvinnslufyrirtæki og annað. Það er ekkert umhverfisvænna að fara með þetta langt í burtu frá byggð,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi og íbúi í Laugarnesi, um afstöðu sína til starfsemi Vöku á núverandi stað.
Hún segist vissulega geta fallist á að starfsemi Vöku sé ekki falleg en hið sama eigi ekki við um röksemdir þess efnis að hún eigi ekki heima í Laugarnesinu. „Ég get hins vegar tekið undir það að bæta megi ásýnd svæðisins og fyrirtækið eigi að vinna innan sinna starfsheimilda.“
Katrín Atladóttir borgarfulltrúi situr í íbúaráðinu eins og Kristín Soffía. Hún kveðst hafa orðið vör við óánægju íbúa með starfsemi Vöku en segir að málið hafi ekki komið inn á sitt borð. Það sé því fagnaðarefni að fá kynningu á því á íbúaráðsfundi á mánudag. „Almennt finnst mér svona starfsemi ekki eiga að vera í miðri borginni. Hún á frekar heima á jaðri borgarinnar. Það er eðlilegt að íbúar í hverfinu hafi áhyggjur af stöðunni í ljósi reynslunnar af brunum hjá Hringrás.“
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. desember.