4.3 C
Grindavik
22. september, 2021

Ákvæði um útgöngubann vekur spurningar

Skyldulesning

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segist staldra við ákvæði um heimild ráðherra til að setja á útgöngubann eins og kveðið er á um í frumvarpi um breytingar á sóttvarnalögum. Frumvarpinu var dreift á Alþingi í gær og gert er ráð fyrir að mælt verði fyrir því á morgun.

„Ég tel það ákvæði þurfa lengri yfirlegu. Það vekur spurningar um hvort eitthvað hafi í raun gefið ástæðu til að óska eftir svo íþyngjandi ákvæði,“ segir Þórhildur Sunna. Hún segir íslensku þjóðina hafa sýnt að henni sé vel treystandi til að fylgja sóttvarnaráðstöfunum og tekist hafi að halda kórónuveirufaraldrinum í skefjum með þeim aðgerðum sem eru í gildi.

Spurð hvort ekki geti komið upp sú staða í þessum faraldri eða öðrum að grípa þurfi til útgöngubanns, segir Þórhildur að Alþingi geti þá brugðist við þeim aðstæðum. „Alþingi hefur sýnt að það getur brugðist hratt við ef nauðsyn ber til. Það hefur ekki verið sýnt fram á að það sé nauðsynlegt að setja jafníþyngjandi heimild inn í lögin. Það þurfa að vera góð rök fyrir jafnfrelsisskerðandi ákvæðum sem hafa svo mikil áhrif á réttindi borgaranna,“ segir hún.

Gott að skýra heimildir

Þórhildur Sunna segist þó ánægð með að með frumvarpinu standi til að gera ýmsar mikilvægar breytingar á sóttvarnalögum. „Bæði er verið að skýra lagaheimildir sem hafa þótt óskýrar og setja inn lagaheimildir sem hefur hreinlega vantað,“ segir Þórhildur Sunna og nefnir sem dæmi rétt einstaklinga sem er gert að sæta sóttkví til að skjóta því til dómstóla.

Á það er ekki minnst í núgildandi lögum, en Þórhildur Sunna telur þó að ef reynt hefði á það, hefðu dómstólar tekið mál af því tagi fyrir.

Hún telur að hugsanlega hefði mátt skipta frumvarpinu í tvennt. Annars vegar nauðsynlegar breytingar sem renna frekari stoðum undir þær sóttvarnaráðstafanir sem gripið hefur verið til, tiltölulega mikil sátt sé um og mætti afgreiða í flýti. Hins vegar óskir um frekari íþyngjandi aðgerðir sem mætti þá leggjast betur yfir og ræða af meiri yfirvegun þegar tími gefst.

Eftirlitshlutverk þings mætti vera virkara

Aðkomu þingsins hefur stundum borið á góma í umræðum um sóttvarnaráðstafanir. Í frumvarpinu er formleg aðkoma þingsins þegar kemur að ákvörðun sóttvarnaráðstafana óbreytt, þ.e. alls engin. 

En hefði Þórhildur Sunna frekar viljað sjá að þingið kæmi að setningu sóttvarnareglna, til dæmis eins og í Svíþjóð þar sem leggja þarf takmarkanir fyrir þingið eftir að þær hafa verið settar?

Þórhildur Sunna telur það ekki. „Mér hefur fundist að þingið ætti að hafa virkara eftirlitshlutverk, en mér finnst ekki að þingið eigi að taka dagsdaglega ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir,“ segir hún.

„Við höfum gagnrýnt hvað ríkisstjórnin er ódugleg að deila sinni aðferðafræði, hvernig hún kemst að sínum niðurstöðum og ákveður til hvaða aðgerða er rétt að grípa til.“ 

„Þingið á auðvitað að fylgjast með því með hvaða hætti ríkisstjórnin metur meðalhóf sinna aðgerða og það liggur hjá ríkisstjórninni að vera dugleg að hafa samráð við þingið – og sérstaklega almenning.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir