9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Ákvörðun um lokun metin í hvert skipti

Skyldulesning

Loka þurfti fyrir umferð um Hellisheiðina vegna veðurskilyrða í síðustu …

Loka þurfti fyrir umferð um Hellisheiðina vegna veðurskilyrða í síðustu viku. Varði lokunin frá mánudegi og fram á miðvikudag. mbl.is/Óttar

Ákvörðunin um að loka veginum sem liggur um Hellisheiði er metin að hverju sinni af fulltrúum Vegagerðarinnar í samráði við  veðurfræðinga Veðurvaktarinnar og Veðurstofuna. Verklagið miðast við að tryggja öryggi vegfarenda en ávallt er reynt að opna fyrir umferð eins fljótt og auðið er eftir lokun. Þetta segir Árni Gísli Árnason, forstöðumaður vöktunar og upplýsinga hjá Vegagerðinni, í samtali við mbl.is.

„Ég held að það sé óhætt að segja að við leggjum okkur fram við að halda veginum opnum eins mikið og hægt er. En svo er lokað þegar aðstæður eru þannig að það er ekki lengur talið öruggt fyrir fólk að ferðast þarna um,“ segir Árni.

„Vegur um Hellisheiðina er fjallvegur og liggur hátt yfir sjávarmáli. Það er oft mun meiri áskorun að halda þeim opnum heldur en vegum sem liggja nærri sjó eða á láglendi í slæmu vetrarveðri,“ bætir hann við.

Margir sem koma að ákvörðuninni

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðisbæjar sendi frá sér áskorun á föstudaginn í síðustu til Vegagerðarinnar í kjölfar þess að vegurinn um Hellisheiði hafði verið lokaður frá mánudegi fram á miðvikudag í sömu viku.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar skýra verkferla gilda um þjónustu á veginum um Hellisheiðina. Veginum væri lokað ef ekki væri hægt að þjónusta hann með þeim hætti að hann sé öruggur miðað við þá umferð sem á honum er.

Spurður nánar út í þessa verkferla og hvaða viðmiða væri horft til þegar ákvörðun um lokun væri tekin, segir Árni að staðan sé metin að hverju sinni í samráði við veðurfræðinga, verktaka sem eru að störfum á svæðinu og eftirlitsmenn á vegum Vegagerðarinnar. Er þetta gert með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, meðal annars úr eftirlitsmyndavélum, og veðurspám.

Þá sé einnig horft til viðbragðsáætlunar fyrir Hellisheiði þar sem þrjú atriði eru skilgreind sem geta leitt til lokunar á veginum; Vegna ófærðar þegar ekki er unnt að hafa undan snjómokstri, þegar skyggni til aksturs er óviðunandi vegna skafrennings eða veðuraðstæðna, og að lokum vegna óviðráðanlegra aðstæðna t.d. vegna umferðaróhapps. 

Ekki miklar breytingar á síðustu árum

Að sögn Árna er veginum um Hellisheiðina lokað þegar skilyrðin eru með þeim hætti að ekki er talið öruggt fyrir fólksbíla að keyra þar um.

„Það er eitt sem gildir yfir alla í raun og veru. Það er erfitt að hafa þetta mismunandi opið fyrir annars vegar jeppa og hins vegar fyrir fólksbíla.“

Aðspurður segir hann ekki miklar breytingar hafa átt sér stað á þeim viðmiðum sem horft er til þegar kemur að þessum lokunum á síðustu árum. Þegar horft er lengra aftur í tímann, þá hafi verið mun algengara að ökumenn hafi fest bíla sína upp á heiðum og dúsað þar lengi áður en hjálp barst að lokum.

„Það er ekki lengur þannig vegna þess að við erum farin að vinna þetta framfyrir okkur og leggja meira mat á spár. Við erum í þéttum samskiptum við veðurfræðinga og erum að vinna þetta eins faglega og hægt er.“

Vegagerðin birti í dag myndband þar sem varpað er ljósi á aðstæður sem geta myndast á Hellisheiði. Myndbandið var tekið á þriðjudaginn í síðustu viku. Er þar meðal annars rætt við Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing og Helga Björnsson vélamann sem starfar við að moka heiðina. Rétt er þó að taka fram að í þeim tilfellum í síðustu viku, sem mbl.is hefur spurt Vegagerðina um, var um mun minni snjó að ræða og virkaði nokkuð greiðfært á vefmyndavélum Vegagerðarinnar af heiðinni.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir