Albert bætti tvö met og þar á meðal afa síns – Vísir

0
21

Albert bætti tvö met og þar á meðal afa síns Íslenski knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson setti tvö íslensk markamet í efstu deild ítalska fótboltans þegar hann fór á kostum með Genoa liðinu í gær.

Albert skoraði tvö mörk í jafntefli Genoa og Udinese en bæði mörkin skoraði hann í fyrri hálfleiknum. Þetta var annar deildarleikurinn í röð Albert er á skotskónum.

Albert varð þarna fyrsti íslenski leikmaðurinn til að skora tvö mörk í einum leik í Seríu A. Fjórir íslenskir leikmenn höfðu skorað í Seríu A en enginn þeirra meira en eitt mark í leik.

Albert varð um leið fyrsti íslenski leikmaðurinn til að skora þrjú mörk á einu tímabili í Seríu A.

Fyrir þetta tímabil höfðu þrír íslenskir leikmenn náð að skora tvö mörk á einu tímabili í efstu deild á Ítalíu.

Afi Alberts og alnafni var einmitt fyrsti íslenski leikmaðurinn til að skora í ítölsku deildinni þegar hann skoraði tvö mörk fyrir AC Milan tímabilið 1948-49.

Sá næsti til þess var Birkir Bjarnason sem skoraði tvö mörk með Pescara tímabilið 2012-13.

Tímabilið á eftir skoraði Emil Hallfreðsson tvö mörk fyrir Hellas Verona.

Emil er markahæsti íslenski leikmaðurinn í Seríu A með fimm mörk en Albert, sem hefur skorað fjögur mörk, vantar aðeins eitt mark til að jafna það met.