-2 C
Grindavik
23. janúar, 2021

Aldargamall ferill í skipun dómara athyglisverður.

Skyldulesning

Í Sovétríkjunu sálugu var það skilyrði sett við val dómara að viðkomandi yrði að vera félagi í Kommúnistaflokknum.  Svipuð heljartök voru viðhöfð í öðrum kommúnistaríkjum. 

Á Íslandi hefur það verið á könnu dómsmálaráðherranna í heila öld að skipa hæstaréttardómarana. 

Og hverjir hafa þá verið dómsmálaráðherrar? 

Það er fróðlegt sem þá kemur upp. 

Stærsti flokkkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn hefur ævinlega komið sinni ár þannig fyrir borð við stjórnarmyndanir sem hann hefur tekið þátt í, að hann fengi dómsmálaráðuneytið. 

Ef um stjórnarsamstarf með Framsóknarmönnum einum hefur verið að ræða, hefur komið til greina að gefa það eftir, en alls ekki verið til umræðu að kratar, „kommar“ eða, hin síðari ár Píratar eða aðrir yrðu svo mikið sem nefndir.   

Undantekningar eru áberandi fáar. Á tíma ríkisstjórna undir forystu Framsóknarmanna 1927 til 1942 höfðu þeir að vísu ráðuneytið. Enginn flokkur var með ráðuneytið á tíma utanþingsstjórnarinnar 1942-44. 

En 1944 hófst gósentíð Sjallanna. Fyrsta skeið hennar stóð til 1956, en í vinstri stjórninni 1956-1958 var Framsókn auðvitað með dómsmálin. 

Minnihlutastjórn krata 1958-1959 hafði að vísu dómsmálaráðuneytið, en stjórnin varð að reiða sig á stuðning Sjalla, sem önduðu ofan í hálsmálið á ráðherranum. 

Siðan kom næsta gósentíð 1959-1971 og á tíma vinstri stjórnar 1971-1974 var sama í gildi og í tíma vinstri stjórnarinnar 1956-1958, að Framsókn var með dómsmálin. 

Þegar síðuhafi var í lagadeild HÍ 1961-64 var einn krati þar við nám og einn Framsóknarmaður. Að mestu leyti var deildin hins vegar eins og uppeldisstöð fyrir komandi lögfræðingahjörð Sjálfstæðisflokksins. 

Höldum áfram. 

1974-1978 var enn hægri slagsíðan í gildi, og í skammlífri vinstri stjórn 1978-1979 pössuðu Framsóknarmenn upp á þetta mikilvæga ráðuneyti. 

Minnihlutastjórn krata 1979-1980 var háð stuðningi Sjálfstæðisflokksins sem andaði ofan í hálsmál Vilmundar Gylfasonar. 

1980 til 2009, í 29 ár, einokaði Sjálfstæðisflokkurinn dómsmálaráðneytið og voru að minnsta kosti tvær skipanir hæstaréttardómara afar umdeildar og það ekki að ástæðulausu. 

Jóhönnnustjórnin 2009 til 2013 var að vísu smá hlé á hinu hálf sovéska kerfi, en síðan hafa Sjallar haft dómsmálin í þremur ríkisstjórnum í röð. 

Alls hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í stjórn í 73 ár síðustu 100 árin, eða álíka langan tíma og kommúnistaflokkurinn fór með dómsvaldið í Sovétríkjunum. 

Allan tímann hefur hann til hins ítrasta reynt að liggja eins og ormur á gulli á þeim áhrifum sem yfirráð yfir dómsmálaráðuneytinu gefa. 

Niðurstaðan af því að renna augum yfir valdaferilinn sem er að verða aldargamall ætti að gefa tilefni til að spyrja spurninga um það, hvort þessi eindæma slagsíða sé og hafi verið eðlileg og hvort að það geti hugsanlega verið ástæða fyrir MDE að fara fram á að tekið sé upp sjálfstæði dómsvaldsins á Íslandi gagnvart framkvæmdavaldinu.  


Innlendar Fréttir