6 C
Grindavik
1. desember, 2020

Aldrei jafn margar konur skipaðar í Hæstarétti

Skyldulesning

Hæstiréttur.

Aldrei hafa fleiri konur verið skipaðar við Hæstarétt Íslands á sama tíma, staðfesti forseti Íslands tillögur dómsmálaráðherra að skipa þær Ásu Ólafsdóttur og Björgu Thorarensen sem dómara við réttinn.

Með skipun Ásu og Bjargar verða þrjár konur skipaðar við réttinn, en í byrjun þessa árs var Ingveldur Einarsdóttir skipuð dómari. Þar með veða þrjár konur og fjórir karlar dómarar við réttinn og hefur það hlutfall aldrei verið jafnara.

Áður hafa þó þrjár konur í nokkur skipti setið við réttinn, en þá var það alltaf eftir að ein eða tvær voru settar ásamt einni eða tveimur sem voru skipaðar. 

Með skipun þeirra Ásu og Bjargar verður heildarfjöldi kvenna sem hefur verið skipaður við réttinn kominn upp í sjö, en frá upphafi hafa 47 karlmenn verið skipaðir dómarar við réttinn.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir í færslu á facebook-síðu sinni að með skipuninni sé verið að stíga mikilvægt skref í jafnræðisátt. Segir hún fagnaðarefni að slíkt gerist á 100. afmælisári réttarins.

Fyrsta konan sem var skipuð við Hæstarétt var Guðrún Erlendsdóttir. Hún var skipuð 1. júlí 1986 og sat til 15. apríl 2006. Hafði hún áður verið sett sem dómari við dóminn í rúmlega 9 mánuði frá 1982-83. Þá var hún settur dómari í þrjú skipti eftir að hún lét af störfum árið 2006.

Guðrún Erlendsdóttir var fyrst kvenna til þess að gegna kennarastöðu …

Guðrún Erlendsdóttir var fyrst kvenna til þess að gegna kennarastöðu við Lagadeild HÍ, sem og fyrst kvenna til að taka sæti í Hæstarétt.

mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ingibjörg K. Benediktsdóttir var næst kvenna til að vera skipuð dómari við Hæstarétt, en hún sat þar frá 1. mars 2001 til 28. febrúar 2014. Hafði hún áður verið settur dómari allt árið 1994 og var svo settur dómari aftur frá maí út júní árið 2016.

Hjördís Björk Hákonardóttir var skipuð dómari 1. maí 2006 og sat til 31. júlí árið 2010. Greta Baldursdóttir, sem lét af embætti fyrr á árinu, var skipuð dómari 1. september 2011 og sat til 31. ágúst í ár.

Að lokum var Ingveldur Einarsdóttir skipuð dómari í byrjun þessa árs, en áður hafði hún verið settur dómari frá 1. janúar 2013 til 15. september 2017.

Með þetta í huga má sjá að það hefur fjórum sinnum gerst að þrjár konur hafi setið við dóminn áður, en sem fyrr segir aðeins ein eða tvær verið skipaðar á hverjum tíma.

  • 1. janúar 2013 – 28. febrúar 2014: Ingibjörg og Greta voru skipaðar og Ingveldur var settur dómari.
  • 1. september 2014 – 31. mars 2015: Greta var skipuð dómari, en Guðrún og Ingveldur settar.
  • 1. janúar 2016 – 29. febrúar 2016: Greta var skipaður dómari, en Guðrún og Ingveldur settar.
  • 1. maí 2016 – 30. júní 2016: Greta var skipaður dómari, en Ingibjörg og Ingveldur settar.

Innlendar Fréttir