7 C
Grindavik
2. mars, 2021

Aldrei mælst meiri úrkoma á Íslandi

Skyldulesning

Keyrt í gegnum vatnsósa bæinn.

Aldrei hefur mælst eins mikil úrkoma á fimm daga tímabili á Íslandi og síðustu fimm daga á Seyðisfirði. Þetta staðfestir Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Um er að ræða dagana 14.-18. desember en þá mældist úrkoma 570 mm. Til samanburðar nemur rigning í Reykjavík á meðalári um 860 millimetrum. 

Kristín segir að Austfirðirnir séu afar úrkomumikið svæði, en þó hafi ekki mælst ákafari rigning á svo skömmum tíma.

Þó segir Kristín að um sé að ræða bráðabirgðatölur og að úrkomumælingar verði rannsakaðar betur á næstu dögum.

Ekki miklar líkur á fleiri stórum skriðum

Vegna rigningarinnar hafa skriður fallið á Seyðisfjörð undanfarna daga.

Að sögn veðurfræðings á vakt hjá Veðurstofu eru ekki miklar líkur á fleiri stórum skriðum á næstu dögum.

Það rigndi lítið seinni part nætur síðastliðna nótt og þurrt hefur verið bróðurpart dagsins í dag. Þótt úrkomulítið hafi verið í dag er líklegt að það muni rigna aðfaranótt mánudags, en vegna mikils kulda mun líklega snjóa í skriðusárin á næstu dögum.

Upp úr hádegi á mánudag verður líklega þurrt á Seyðisfirði og fram á aðfangadag.

Innlendar Fréttir