7.3 C
Grindavik
4. október, 2022

Aldrei skemmtilegt að lenda í svona málum

Skyldulesning

Um sé að ræða atvik þar sem starfsfólki sé annað …

Um sé að ræða atvik þar sem starfsfólki sé annað hvort ógnað með orðum eða það verði einhver líkamleg snerting sem er litið á sem ofbeldi. Ljósmynd/MAST

„Almennt þá eigum við í mjög góðum samskiptum og samtali við alla okkar eftirlitsþega, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar sem við sinnum eftirliti með,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, í samtali við mbl.is

Fyrr í dag var greint frá því að veist hafi verið að starfsmanni stofnuninnar við eftirlit og er málið í farvegi hjá lögreglu.

Hún segir að atvik sem þessi gerist sem betur fer sjaldan, en gerist þó. „Það koma upp atvik að viðkomandi aðili, sérstaklega ef það er verið að gera einhverjar athugasemdir, að orðfærið er ekki alveg eins og það á að vera.“

Ef svo beri undir, kveði verklagsreglur á um að starfsmenn MAST eigi að bakka út úr aðstæðunum og koma aftur ásamt öðrum starfsmanni eða yfirmanni.

Útsett fyrir atvikum

„Ef hins vegar koma upp atvik þar sem starfsfólki sé annað hvort ógnað með orðum eða það verði einhver líkamleg og ógnandi snerting, þá er litið á það sem ofbeldi. Þá sé mjög skýrt, öryggis starfsfólksins vegna, að allt slíkt sé kært til lögreglu umsvifalaust,“ segir Hrönn.

Eftirlitsaðilar séu oftar en ekki einir í eftirliti hjá fyrirtæki eða einstaklingi og því útsettir fyrir atvikum sem þessum.

„Því verðum við, vellíðunar starfsfólksins okkar vegna, að hafa skýrar reglur um að ef það lendir í erfiðum aðstæðum, hafa ekki stjórn á atburðarásinni, þá eiga þau að tryggja öryggi og ganga út úr aðstæðum. Eða ef svona kemur upp á þá höfum við þetta, [að tilkynna til lögreglu].“

Hótað með barefli

Hrönn segir að öll þrjú atvikin sem hafa komið upp síðustu ár eigi það sameiginlegt að hafa átt sér stað við eftirlit. Í einu tilfellinu hafi eftirlitsaðila verið hótað með barefli, en sú hafi ekki verið raunin í þetta skipti.

„Svo er það líka okkar að hlúa að okkar starfsmanni og tryggja það að ef hann þarf frekari aðstoð að hann fái hana.

Svona málum er aldrei skemmtilegt að lenda í og getur haft sálrænar afleiðingar.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir