Allir viðskiptabankar hafa nú boðað vaxtalækkun eftir síðustu stýrivaxtalækkun Seðlabanka Íslands.
Arion banki boðaði í gær lækkun útlánavaxta sem taka gildi á morgun. Þar með hafa allir viðskiptabankar lækkað útlánsvexti eftir síðustu stýrivaxtalækkun Seðlabanka Íslands.
Þann 18. nóvember sl. lækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti um 0,25 prósentustig, niður í 0,75%. Landsbankinn tilkynnti í kjölfarið um lækkun vaxta til einstaklinga og fyrirtækja sem taka gildi 1. desember nk.
Landsbankinn lækkar breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,2 prósentustig, breytilega vexti á verðtryggðum íbúðarlánum um 0,1 prósentustig, kjörvexti á óverðtryggðum útlánum til fyrirtækja um 0,2 prósentustig og kjörvexti verðtryggðra útlána um 0,1 prósentustig.
Yfirdráttarvextir lækka hjá Landsbankanum um 0,1-0,2 prósentustig.
Íslandsbanki á sömu nótum
Sömuleiðis tilkynnti Íslandsbanki um vaxtalækkun sem tók gildi 1. desember.
Íslandsbanki lækkar breytilega vexti húsnæðislána um 0,1 prósentustig og óverðtryggða kjörvexti um 0,2 prósentustig.
Yfirdráttavextir lækka um allt að 0,25 prósentustig og Ergo bílalán og bílasamningar lækka um 0,15 prósentustig.
Vaxtalækkun Arion tekur gildi á morgun
Þá tilkynnti Arion banki um vaxtalækkun fyrir sína viðskiptavini í gær en þeir taka gildi á morgun 11. desember.
Arion banki lækkar breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,1 prósentustig, breytilega vexti á verðtryggðum íbúðalánum um 0,20 prósentustig og kjörvexti lána um 0,1 prósentustig.
Yfirdráttarvextir lækka um allt að 0,25 prósentustig og kjörvextir bílalána lækka einnig um 0,1 prósentustig.