3 C
Grindavik
4. mars, 2021

Allt að 50 í fjöldahjálparstöð fyrir austan

Skyldulesning

Frá fjöldahjálparmiðstöðinni á Seyðisfirði.

Frá fjöldahjálparmiðstöðinni á Seyðisfirði.

Ljósmynd/Guðjón Sigurðsson

Á bilinu 40 til 50 manns hafast við í fjöldahjálparstöð Rauða krossins sem var sett upp í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði eftir að tvær aurskriður féllu þar fyrr í dag.

Ákveðið var að rýma hluta af svæði C í bænum en gatan Botnahlíð, sem er efst í bænum, er hluti af því. 

Komið var með auka fjöldahjálparbúnað frá Egilsstöðum.

Komið var með auka fjöldahjálparbúnað frá Egilsstöðum.

Ljósmynd/Guðjón Sigurðsson

Fá auka búnað frá Egilsstöðum 

Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri innanlandssviðs hjá Rauða krossinum, reiknar með því að flest fólkið finni sér gistingu annars staðar í bænum hjá vinum og vandamönnum. „Við erum með búnað ef einhverjir þurfa að gista þarna og við erum búin undir það. Það kemur ekkert í ljós fyrr en það líður á kvöldið,“ segir Jón Brynjar.

Verið er að flytja auka fjöldahjálparbúnað í bæinn frá Egilsstöðum. Vegna slæmrar færðar á Fjarðarheiði hafa tafir orðið á ferðalaginu. Í kerrunni sem flutt er á milli eru neyðarbeddar, teppi, veitingar og fleira.

Frá fjöldahjálparmiðstöðinni.

Frá fjöldahjálparmiðstöðinni.

Ljósmynd/Guðjón Sigurðsson

Uppfært kl. 19.19:

Það voru sjálfboðaliðar Múlasýsludeildar Rauða krossins (deildin nær yfir Fljótsdalshérað, Vopnafjörð, Borgarfjörð eystra og Seyðisfjörð) sem opnuðu fjöldahjálparstöðina í Herðubreið. Núna eru þar staddir um 30 manns. Elduð var súpa handa þeim og viðbragðsaðilum.

Flestir eru komnir með gistingu hjá vinum og ættingjum yfir nóttina en einnig hefur hótel á staðnum boðið fólki gistingu. Líklega munu einhverjir gista í fjöldahjálparstöðinni en annars hefur allt gengið að óskum.  

Innlendar Fréttir