1 C
Grindavik
28. nóvember, 2020

Alvarlegt mannúðarástand í uppsiglingu í Eþíópíu

Skyldulesning

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna varar við alvarlegu mannúðarástandi í Eþíópíu vegna átaka sem geisa í norðanverðu landinu. Um 27.000 manns hafa flúið til nágrannaríkisins Súdan er þar er fyrir um milljón flóttamanna.

Stjórnarher Eþíópíu hefur barist við uppreisnarmenn í Tigray-héraði í norðanverðu landinu. Fregnir hafa borist af því að hundruð manna hafi fallið. Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að fjöldamorð hafi verið framin á óbreyttum borgurum þar.

Um fjögur þúsund manns streyma nú yfir landamærin til Súdan á hverjum degi. Babar Baloch, talsmaður flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.

„Fólk kemur frá Eþíópíu skelfingu lostið, óttaslegið með sögur um að það flýi hörð átök og það eru engin merki um að átökunum linni,“ sagði Baloch á fréttamannafundi í Genf í dag.

Þvert á móti gáfu viðvaranir forsætisráðherra Eþíópíu í dag tilefni til að ætla að átökin eigi aðeins eftir að harðna. Sagði hann að frestur fyrir uppreisnarmenn í Tigray til að leggja niður vopn væri runninn út.

„Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna varar við því að meiriháttar mannúðarástand sé að verða til þar sem þúsundir flóttamanna flýja áframhaldandi átök í Tigray-héraði Eþíópíu á hverjum degi til að leita skjóls í austanverðu Súda,“ sagði Baloch.

Sameinuðu þjóðirnar eru tilbúnar til aðstoðar þegar aðgangur og öryggi starfsmanna þeirra verður tryggður, hefur Reuters-fréttastofan eftir talsmanni mannúðarmála hjá stofnuninni.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna segir að hún standi nú fyrir daglegum flugferðum til Kassala í austanverðu Súdan og geti sent af stað þyrlur til að ná til einangraðra hópa Þegar hafi um eitt tonn af matvælum verið send til Súdan sem ætti að duga 60.000 manns í mánuð.

Innlendar Fréttir