Amma og afi Emilie Meng tjá sig um nýjustu vendingar – DV

0
70

Það myndi skipta fjölskyldu Emilie Meng gríðarlega miklu máli ef morðingi hennar verður dæmdur í fangelsi.

Þetta segja amma og afi stúlkunnar en danska lögreglan greindi frá því á blaðamannafundi í morgun að 32 ára karlmaður, sem nam hina 14 ára gömlu Filippu á brott fyrr í þessum mánuði, hefði verið kærður fyrir morðið á Emilie árið 2016.

Emilie var 17 ára þegar hún hvarf sporlaust þann 10. júlí 2016. Hálfu ári síðar fannst lík hennar í vatni við Borup. Strax eftir ránið á Filippu fór lögregla að kanna hvort einhver tengsl væru á milli þessara tveggja mála og virðist lögreglan nú vera komin með sterkar sannanir fyrir því að svo sé.

Amma og afi Emilie tjáðu sig um nýjustu vendingar í samtali við TV2 í morgun. Amma Emilie, hin 77 ára gamla Lone Meng, og afi hennar, hinn 79 ára gamli Per Meng, segjast hafa fengið fréttirnar af kærunni á sama tíma og danska þjóðin í morgun – á blaðamannafundi lögreglu.

Undanfarin sjö ár hafa reynst aðstandendum Emilie erfið og segja Lone og Per að það hafi verið algjör martröð að vita til þess að morðinginn gengi laus. Líkja þau því við að hafa opið sár sem ekki grær.

Lone og Per segjast meðvituð um að málinu sé ekki lokið þó stórt skref hafi verið tekið í morgun.

„Það er ekkert öruggt fyrr en dómur liggur fyrir,“ segir Per.