4 C
Grindavik
7. mars, 2021

Andlát í miðju flugi – „Maðurinn sem situr fyrir aftan mig DÓ ÚR COVID“

Skyldulesning

Flugfélagið United Airlines vinnur þessa stundina með bandarísku sóttvarnarstofnuninni (CDC) til að ná í farþega sem flugu með félaginu þann 14. desember síðastliðinn. Flugið var frá Orlando til Los Angeles en maður nokkur lést í miðju flugi. Maðurinn sem um ræðir var með einkenni Covid-19. CNN og fleiri erlendir miðlar hafa fjallað um málið.

Fjölskylda mannsins sem lést hefur staðfest, í samtali við flugfélagið, að maðurinn hafi verið í áhættuhóp. Þá sagði fjölskyldan einnig að hann hafi verið slappur í nokkra daga áður en hann fór í flugið til Los Angeles.

Þrátt fyrir þetta sagði maðurinn við flugfélagið að hann væri ekki með nein einkenni áður en hann fór í flugið. Ef hann hefði verið með einkenni hefði hann ekki fengið að fara í flugið.

Vélin fór ekki á áfangastað vegna andlátsins en hún lenti í New Orleans. Þar var farið með manninn beinustu leið á spítala en þar var hann úrskurðaður látinn. Vitni segjast hafa heyrt í eiginkonu mannsins lýsa einkennum mannsins fyrir sjúkraliðum. Einkennin sem hún nefndi voru til dæmis þau að maðurinn fann hvorki lykt né bragð, dæmigerð einkenni kórónuveirunnar.

Buzzfeed fjallaði einnig um málið og sagði til að mynda frá færslum sem aðrir farþegar vélarinnar birtu eftir flugið. „Maðurinn sem situr fyrir aftan mig DÓ ÚR COVID. Í MIÐJU FLUGI,“ skrifaði kona nokkur sem Buzzfeed telur að hafi verið farþegi í fluginu. „Við höldum áfram að fljúga. Í þessari SÖMU SMITUÐU flugvél. Eins gott að blautþurrkurnar bjargi deginum í dag.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem manneskja lætur lífið vegna Covid-19 í miðju flugi. Í síðastliðnum júlí lést til að mynda kona á fertugsaldri vegna Covid-19 en hún var í flugvél sem var á leið frá Texas til New Mexico.

Innlendar Fréttir