-5 C
Grindavik
3. desember, 2020

Andlát: Jón Vilhjálmsson

Skyldulesning

Jón Vilhjálmsson rafmagnsverkfræðingur lést á líknardeild Landspítalans sl. föstudag, 13. nóvember, 65 ára að aldri. Jón fæddist í Reykjavík 5. maí 1955, sonur hjónanna Vilhjálms Jónssonar, hrl. og forstjóra Olíufélagsins hf., og Katrínar Sigríðar Egilsdóttur ritara.

Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1975, prófi í rafmagnsverkfræði frá HÍ 1979 og meistaraprófi í rafmagnsverkfræði (M.S.E.E.-prófi) frá tækniháskólanum í Atlanta í Bandaríkjunum 1980. Hann starfaði hjá þessum háskólum á námsárum sínum og fékk Fulbright-styrk og Thor Thors styrk til nám í Bandaríkjunum.

Eftir nám vestanhafs kom Jón til starfa hér heima hjá Orkustofnun og starfaði þar 1980-1986, lengst sem deildarstjóri orkubúskapardeildar. Stofnaði verkfræðistofuna Afl árið 1987 og rak við þriðja mann til ársins 2008, er hún ásamt þremur öðrum stofum var sameinuð í eitt fyrirtæki sem nú er Efla. Þar stýrði Jón orkusviði frá 2010 fram á þetta ár auk þess sem hann sat í stjórn fyrirtækisins um skeið. Eftir hann liggur fjöldi greina og skýrslna um orkumál hér á landi.

Jón tók að sér ýmis félags- og trúnaðarstörf, meðal annars á vettvangi Verkfræðingafélags Íslands. Þá vann hann einnig mikið starf fyrir barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Fylkis og var þar formaður 2010-2012. Eftirlifandi eiginkona Jóns er Jóhanna Rósa Arnardóttir félagsfræðingur. Barn þeirra er Vilhjálmur og stjúpbörn Jóns og börn Rósu eru Svavar og Erna Dís.

Innlendar Fréttir