2.3 C
Grindavik
27. nóvember, 2021

Andlát: Páll Pétursson, fyrrverandi ráðherra

Skyldulesning

Páll Pétursson á Höllustöðum, bóndi, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést á Landspítalanum í gær, 23. nóvember, 83 ára að aldri.

Páll var fæddur á Höllustöðum í Blöndudal 17. mars 1937, sonur hjónanna Péturs Péturssonar (1905-1977) og Huldu Pálsdóttur (1908-1995) og var elstur fjögurra systkina.

Páll lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1957 og hóf búskap það sama ár á Höllustöðum. Hann hóf snemma afskipti af félagsmálum, einkum á vettvangi Framsóknarflokksins. Var árið 1974 kjörinn á Alþingi og átti þar sæti til ársins 2003. Var formaður þingflokks Framsóknar í fjórtán ár, var tvívegis forseti Norðurlandaráðs og formaður Vestnorræna þingmannaráðsins um tveggja ára skeið. Þá sat hann í flugráði og stjórn Landsvirkjunar og var formaður lyfjagreiðslunefndar um nokkurt skeið. Vorið 1995 var Páll skipaður félagsmálaráðherra. Því embætti gegndi hann til 2003.

Páll gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína, vann að hagsmunum hestamanna, var formaður Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps og formaður undirbúningsnefndar um stofnun Textílseturs Íslands á Blönduósi. Alla tíð sýslaði hann við búskap á Höllustöðum ásamt fjölskyldu sinni.

Fyrri eiginkona Páls var Helga Ólafsdóttir (1937-1988). Börn þeirra eru Kristín bóndi, Ólafur Pétur, prófessor við HÍ, og Páll Gunnar, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Eftirlifandi eiginkona Páls er Sigrún Magnúsdóttir (f. 1944), fv. borgarfulltrúi og umhverfisráðherra. Dætur hennar og stjúpdætur Páls eru Sólveig Klara Káradóttir geðhjúkrunarfræðingur og Ragnhildur Þóra Káradóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Háskólann í Cambridge. Páll lætur eftir sig á þriðja tug barnabarna, stjúpbarnabarna og barnabarnabarna.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir