Anna fékk hálsmen frá unnustanum – 18 mánuðum síðar uppgötvaði hún leyndarmálið í því – DV

0
126

Þegar Anna og Terry, sem eru bresk, höfðu verið par í eitt ár, ákvað Terry að koma henni á óvart og gefa henni sérstaka gjöf. Hann bjó til einstakt hálsmen úr tré úr regnskógi í Tasmanínu og úr skel. Independent segir að Anna hafi að vonum glaðst mjög þegar hún fékk þessa persónulegu gjöf. Hún bar það daglega en það leið hálft annað ár þar til hún uppgötvaði leyndarmálið í hálsmeninu.

Það var ekki fyrr en þau fóru saman í ferð til Skotlands að Terry skýrði henni frá því að inni í hálsmeninu væri annar skartgripur.

„Ég ákvað að biðja hennar en ég vildi gera eitthvað sérstakt úr þessu. Ég vildi líka byrja að vinna úr tré og hafði fengið þessa hugmynd að hálsmeni svo ég ákvað að prufa að gera það. Ég fann hring, sem ég vissi að passaði á hana, og byrjaði að vinna með þetta,“ sagði hann.

Í ferðinni bað hann um að fá hálsmenið aðeins til að taka myndir af því. Hann dró síðan upp hníf og notaði hann til að opna það áður en þau komu á staðinn þar sem hann ætlaði að bera stóru spurninguna upp.

Hann stillti myndavélina á sjálfvirka myndatöku og gekk síðan til Önnu til að afhenda henni hálsmenið en kom henni þá á óvart með því að falla á hné og sýna henni hringinn.

Eins og gefur að skilja var hún mjög hissa þegar hún komst að því að hún var búin að bera hringinn í hálft annað ár. Henni var einnig brugðið vegna þess: „Ég hefði getað týnt honum, bjáninn þinn,“ sagði hún áður en hún játaðist honum.