Anna Hildur endur­kjörin for­maður SÁÁ – Vísir

0
45

Anna Hildur endur­kjörin for­maður SÁÁ Oddur Ævar Gunnarsson skrifar 4. maí 2023 13:23

Anna Hildur Guð­munds­dóttir var endur­kjörin for­maður SÁÁ á fundi aðal­stjórnar sam­takanna að loknum aðal­fundi sem haldinn var 2. maí. Þráinn Farest­veit var endur­kjörinn vara­for­maður og Gróa Ás­geirs­dóttir ritari.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá fé­laginu. Þar segir að á aðal­fundi hafi komið fram að rekstrar­tekjur SÁÁ hafi numið rúmum tveimur milljörðum króna 2022 og var rekstrar­af­koman nei­kvæð um 184 milljónir króna.

Þá kemur fram í til­kynningunni að sjálfs­afla­tekjur SÁÁ hafi numið 570 milljónum króna, seld þjónusta 118 milljónum og fram­lag á fjár­lögum til sjúkra­reksturs var 1.330 milljónir króna. Á árinu 2022 hafi 3.500 ein­staklingar notið þjónustu SÁÁ og voru þjónustu­snertingar 28 þúsund.

Segir í til­kynningunni að með þjónustu­snertingu sé átt við hvert skráð til­felli þar sem við­komandi er sinnt með einum eða öðrum hætti.

Sam­þykktu viða­miklar breytingar Viða­miklar breytingar á sam­þykktum SÁÁ voru sam­þykktar á aðal­fundinum að því er segir í til­kynningunni og hafa þær verið birtar á vef­síðu sam­takanna saa.is.

Á fundinum voru þau Íris Kristjáns­dóttir og Sigurður Frið­riks­son jafn­framt út­nefnd heiðurs­fé­lagar SÁÁ. 

Þá fjallaði Anna Hildur á fundinum um þau á­form SÁÁ að beina at­hyglinni í vaxandi mæli að því já­kvæða sem fylgir því að ná tökum á fíkn­sjúk­dómnum. Á­stæða væri til að tala um gleðina og það nýja og betra líf sem kemur í kjöl­farið – allt annað líf.