Everton vann sinn annan leik í röð í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar liðið heimsótti Leicester í kvöld en leiknum lauk með 2:0-sigri Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn á miðsvæðinu hjá Everton en Richarlison kom Everton yfir um miðjan fyrri hálfleikinn.
Mason Holgate bætti við öðru marki Everton á 72. mínútu og þar við sat en Everton vann 1:0-sigur gegn Chelsea á Goodison Park um síðustu helgi.
Everton fer með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar í 23 stig en Leicester er í fjórða sætinu með 24 stig.
Þá skoruðu nýliðar Leeds fimm mörk þegar liðið fékk Newcastle í heimsókn en Jeff Hendrick kom Newcstle yfir á 26. mínútu.
Patrick Bamford jafnaði metin fyrir Leeds, níu mínútum síðar, og staðan því 1:1 í hálfleik.
Rodrigo kom Leeds yfir á 62. mínútu en Ciaran Clark jafnaði metin fyrir Newcastle þremur mínútum síðar.
Stuart Dallas, Azgjan Alioski og Jack Harris bættu svo við sitt hvoru markinu fyrir Leeds á tíu mínútna kafla undir lok leiksins og Leeds fagnaði 5:2-sigri.
Leeds er með 17 stig í þrettánda sæti deildarinnar en Newcastle er í fjórtánda sætinu með 17 stig.