8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Anníe Mist skorar á fylgjendur sína í hverri viku

Skyldulesning

Sport

Anníe Mist Þórisdóttir er á fullu að æfa sjálf en vill líka fá fólk með sér.
Anníe Mist Þórisdóttir er á fullu að æfa sjálf en vill líka fá fólk með sér.
Instagram/@anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir hvetur fylgjendur sína til að gera með henni eina æfingu á hverjum mánudegi.

Íslenska CrossFit konan Anníe Mist Þórisdóttir er á fullu að vinna að því að koma sér í sitt besta form á ný eftir barnsburð en henni er líka umhugað að fylgjendur hennar á Instagram séu að hreyfa sig.

Undanfarnar vikur hefur Anníe Mist sett inn nýja æfingu á hverjum mánudegi sem hún hvetur fylgjendur sína til að gera með sér. Hún kallar þetta mánudagsáskorunina.

Anníe Mist er með 1,3 milljónir fylgjenda á Instagram og því ættu æfingar hennar að ná til margra.

Anníe vill líka að þeir sem gerir æfingarnar reyni líka að fá félaga sinn með sér og með því stækka hópinn enn frekar.

Fólk er auðvitað mikið heima við í þessum heimsfaraldri og líkamsræktarstöðvar lokaðar í mörgum löndum.

Anníe Mist leggur áherslu á það að gera æfingarnar einfaldar en um leið reyna þær vel á. „Þetta verður einfalt en um leið erfitt. Það ættu samt allir að geta tekið þátt,“ sagði Anníe Mist Þórisdóttir þegar hún kynnti fyrst mánudagsáskorun sína.

Æfingarnar er líka hægt að gera án þess að þurfa að treysta á tæki og tól í líkamsræktarsal sem ætti að gera fylgjendum hennar enn auðveldara fyrir.

Hér fyrir neðan má sjá þessar fyrstu þrjár mánudagsáskoranir hjá Anníe Mist.

Innlendar Fréttir