7.3 C
Grindavik
24. október, 2021

Arecibo-útvarpssjónaukinn hruninn

Skyldulesning

Móttökutæki Arecibo-útvarpssjónaukans á Púertó Ríkó hrundi meira en 120 metra niður á endurvarpsdisk hans í dag. Nýlega var ákveðið að taka sjónaukann úr notkun vegna skemmda sem höfðu orðið á honum.

Arecibo-útvarpssjónaukinn var stærsti útvarpssjónauki heims með 305 metra breiðan endurvarpsdisk um áratugaskeið. Mikilvægar uppgötvanir í stjörnufræði voru gerðar með sjónaukanum, þar á meðal á svonefndum tifstjörnum sem leiddi til Nóbelsverðlauna í eðlisfræði.

Engan sakaði þegar móttökutækið hrundi. Vísindasjóður Bandaríkjanna, sem hefur rekið sjónaukann, sagði á Twitter að unnið væri að því að meta ástand sjónaukans.

The instrument platform of the 305m telescope at Arecibo Observatory in Puerto Rico fell overnight. No injuries were reported. NSF is working with stakeholders to assess the situation. Our top priority is maintaining safety. NSF will release more details when they are confirmed. pic.twitter.com/Xjbb9hPUgD

— National Science Foundation (@NSF) December 1, 2020

Burðarkaplar sjónaukans urðu fyrir skemmdum í röð fellibylja og jarðskjálfta sem hafa dunið á Púertó Ríkó undanfarin ár. Einn þeirra slitnaði í ágúst og myndaðist þá þrjátíu metra breitt gat í diskinn. Annar og mikilvægari kapall brást snemma í nóvember. Skömmu síðar var tekin ákvörðun um að taka sjónaukann varanlega úr notkun.

Vísindamenn sem nýttu sér sjónaukann harma endalok hans, að sögn AP-fréttastofunnar. Carmen Pantoja, stjörnufræðingur og prófessor við Háskólann á Púertó Ríkó, segir mikinn missi í sjónaukanum.

„Þetta var kafli í lífi mínu,“ segir Pantoja sem gerði athuganir fyrir doktorsverkefni sitt með sjónaukanum.

Abel Méndez, prófessor í stjörnulíffræði við sama háskóla, tekur í svipaðan streng.

„Heimurinn tapar án sjónaukans en Púertó Ríkó tapar enn meiru,“ segir hann.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir