-1 C
Grindavik
23. janúar, 2021

Arnar stefnir á kaffibolla með Kolbeini Sigþórssyni: „Djöfull væri gaman að sjá hann í Víkinni“

Skyldulesning

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings mun skoða það hvort félagið geti fengið Kolbein Sigþórsson markahæsta leikmann í sögu íslenska landsliðsins til félagsins.

Kolbeinn sem er þrítugur hefur rift samningi sínum við AIK í Svíþjóð en báðir aðilar komust að slíku samkomulagi. Kolbeinn ólst upp í Víkinni.

„Ég mun klárlega heyra í honum, fyrst og fremst svekkjandi hvernig ferill hans hefur þróast. Maður óskar þess heitt og innilega að hvað sem hann gerir, að hann finni ánægjuna og verði heill,“ sagði Arnar á fréttamannafundi í Víkinni í dag eftir að Kári Árnason og Þórður Ingason höfðu framlengt samninga sína við félagið.

Kolbeinn hefur glímt við talsvert af meiðslum síðustu ár og óvíst er hvaða skref hann tekur á ferlinum.

„70 prósent Kolbeinn Sigþórsson er mjög góður fyrir íslenska landsliðið, ef hann ákveður að koma heim þá krefjumst við þess að hann tali við okkur.“

„Við heyrum í honum, kannski tekur maður kaffibolla með honum þegar hann kemur heim. Kolbeinn á nóg eftir, hann er þrítugur. Það er enginn aldur, hans leikstíll hefur ekki byggst upp á hraða. Djöfull væri gaman að sjá hann í Víkinni, ég neita því ekki.“

Viðtalið við Arnar er í heild hér að neðan.

Innlendar Fréttir