Arnar Þór eftir slæmt tap Íslands í Bosníu – „Þetta var ekki úrslitaleikurinn í riðlinum“ – DV

0
188

Ís­lenska karla­lands­liðið í knatt­spyrnu hóf veg­ferð sína í undan­keppni EM 2024 á afar slæmu tapi gegn Bosníu & Herzegovinu á úti­velli. Loka­tölur 3-0 í Zeni­ca í kvöld. Arnar Þór Viðarsson segir liðið hafa hent leiknum frá sér í fyrri hálfleik og laga þurfi ansi mikið hjá liðinu til að koma því á sama plan og til dæmis lið Bosníu.

„Við hentum þessu frá okkur í fyrri hálfleik,“ sagði  Arnar í viðtali við Viaplay eftir leik. „Við vissum að við værum að koma á efiðan útivöll, hér hafa þeir verið að ná í góð úrlsit. Þeir voru mjög solid og sterkir. Við vorum ekkji á okkar leik. 2-0 í hálfleik og við náðum ekki að stilla okkur af fyrir annað markið.

Svo fannst mér seinni hálfleikurinn, þeir komnir 2-0 yfir, en það var meira jafnvægi hjá okkur. Við vorum aðeins betri í seinni hálfleik en svo skora þeir þriðja markið. Við erum að fá of auðveld mörk á okkur, við erum ekki að vinna nóg mikið af einvígum, náu ekki að klukka þá. Við vorum bara ekki á okkar leik í dag.

Varnarleikur liðsins geti ekki hafa verið það sem lagt var upp með.

„Að sjálfsögðu ætluðum við okkur meira og vildum meira. Ég hef sagt það áður og segi það aftur, þetta var ekki úrslitaleikurinn í riðlinum. Að sjálfsögðu var þetta slæmt tap, við erum allir mjög ósáttir með þetta, ég að sjálfsögðu líka. Við þurfum að fara á hærra plan, hærra tempó og laga leik okkar all verulega ef við ætlum okkur að vera í baráttunni um þetta annað sæti í riðlinum. Við getum það alveg, höfum sýnt það að við getum miklu betur en þetta.

Þetta er bara hluti af fótboltanum, því miður. Það er oft erfitt að koma á svona útivelli og ná í úrslit. Við ætluðum að ná í úrslit, vildum gera betur en þetta var bara ekki nægilega gott í dag.“

Hvað sagðirðu við strákana í hálfleik?

„Við lentum í basli í fyrri hálfleik með þeirra hægri vængbakvörð sem var að fá alltof mikið pláss. Þeir voru að komast of auðveldlega frá vinstri og yfir á hægri. Bæði mörkin í fyrri hálfleik komu í rauninni eftir skyndisókn og það er náttúrulega mjög slæmt. Í hálfleik stilltum við þetta svolítið af, létum Jón Dag taka maður á mann dekkningu á hægri vængbakvörðinn þeirra.“

Arnar var þá spurður að því hvort það hefðu verið mistök að byrja aðeins með einn djúpan miðjumann.

„Nei við breyttum því nú strax eftir fimm mínútur og settum Jóhann Berg við hliðina á Arnóri, það fór svolítið bara eftir því hvernig þeir voru að spila. Um leið og við sáum þá spila með tvo sóknarsinnaða, þá snerum við því eiginlega strax yfir. Það var í raun alltaf planið hjá okkur að sjá hvað þeir myndu gera svo við gætum aðlagað okkur að því, til þess að ná að stoppa þessar hröðu sóknir og vera betur til þess búnir að vinna annan boltann. Við unnum bara ekki nóg af einvígum, unnum ekki nógu mikið af öðrum boltum. Það var bara allt of langt á milli okkar.

Mér fannst við byrja seinni hálfleikinn mun betur, það var komið jafnvægi á okkar leik. Þetta þriðja mark klárar leikinn endanlega og kemur upp úr þurru. Við vorum ekki nógu aggressívir. En að sjálfsögðu eru í þessu hlutir sem ég tek á mig, það er ekki spurning. Við vinnum leiki saman og töpum leikjum saman. Þegar að þú tapar 3-0 þá gerir þjálfarinn ekki allt rétt, það er alveg ljóst.ׅ“

Varpað var ljósi á óánægjuna og pirringinn hér heima sem ríkir eftir úrslit sem þessi. Arnar var spurður að því hvernig væri hægt að svara þessu.

„Það er að vinna leiki, það er leikur á sunnudaginn og við ætlum okkur að sjálfsögðu að byrja einbeita okkur á að vinna þann leik sem fyrst. Svo eru leikir í júní sem koma þar á eftir. Eina leiðin til þess að snúa þjóðinni við er að vinna leiki, það er ósköp einfalt.“

Var þetta versta mögulega niðurstaðan fyrir fram?

„Já, bara tap var versta mögulega niðurstaðan. Við ætluðum okkur að sjálfsögðu mikið meira en þurfum bara að laga ansi mikið til að koma okkur upp á sama plan og til dæmis Bosnía. Við megum ekki gleyma því að þetta er mikið betra lið en fólk vildi trúa, þú getur unnið alla leiki og tapað öllum leikjum. Við þurfum bara að bæta okkur.

Er hægt að taka eitthvað jákvætt úr leik kvöldsins?

„Mér fannst strákarnir sem komu inn á koma frískir inn. Auðvitað er alltaf eitthvað jákvætt en þegar að maður tapar 3-0 þá er mjög erfitt, tíu mínútum eftir leik að taka eitthvað jákvætt úr þessu.“