1 C
Grindavik
17. janúar, 2021

Arnar Þór: „Winning is a habit, get fucking used to it“

Skyldulesning

„Ég vil þakka Guðna, Klöru og stjórninni fyrir traustið. Þetta eru stærstu þjálfarastörf á Íslandi, við erum stoltir af því að fá þetta tækifæri. Við erum tilbúnir í þetta ævintýri, þetta er stórt mál og stór verkefni. Þetta gerir maður ekki einn, það er öll þjóðin sem fer á bak við liðið, eins og hefur verið síðustu tíu ár. Allir Íslendingar sem taka þátt í þessu að búa til stemmingu og þetta umhverfi sem verið hefur síðustu tíu ár, við munum stýra skútunni eins vel og við getum,“ sagði Arnar Þór Viðarsson nýr landsliðsþjálfari Íslands í karlaflokki, Arnar var ráðinn til starfa í dag en Eiður Smári Guðjohnsen verður aðstoðarmaður hans.

Arnar og Eiður unnu gott starf með U21 árs landsliðið og komu liðinu inn á lokamót Evrópumótsins. Arnar Þór segir allt tal um kynslóðaskipti í A-landsliði karla, bull og vitleysu.

„Það er alveg ljóst að íslenska landsliðið, er valið af bestu leikmönnum Íslands. Ég hef sagt það áður og segi það núna, það er ekkert til sem heitir kynslóðaskipti. Ekkert sem heitir að við ætlum að búa til nýtt lið, við erum þjálfarar Íslands núna. Það verður besta liðið valið, sá hópur sem veitir okkur þann möguleika að skila flestum stigum í hús. Hverjir verða valdir og hverjir eru hættir, það kemur í ljós á næstu mánuðum. Við munum vinna okkar vinnu almennilega og tala mikið og við marga, svo er þetta spurning um hver sé bestur í hverri stöðu. Við veljum þá sem skila bestu frammistöðunni í hverri stöðu fyrir okkar leikkerfi,“ sagði Arnar.

Arnar og Eiður léku lengi vel saman í landsliðinu en Eiður Smári þekkir þann hóp sem er til staðar í dag. „Eiður var með liðinu á EM í Frakklandi, hann þekkir umhverfið af lokamóti sem ég þekki ekki. Það þarf að vera tening við leikmennina en ekki að vera vinur þeirra, heldur að ná því besta fram úr þeim. Að þeir spili á sínum styrkleikum. Eiður er sá Íslendingur sem hefur unnið mest á ferlinum. Það er eitt sem við reynum að vinna út frá og Eiður notar þetta mikið ´Winning is a habit, get fucking used to it´“

Arnar Þór var spurður út í þá litlu reynslu sem hann hefur. „Ég hef þá reynslu sem ég hef, mikilvægara er að ég hef trú á okkar landsliði og mér, því starfsliði og leikmönnum sem verða. Við verðum tilbúnir.“

Innlendar Fréttir