5 C
Grindavik
18. apríl, 2021

Arsenal – Southampton, staðan er 1:1

Skyldulesning

Gabriel brýtur á Theo Walcott og fær sitt annað gula …

Gabriel brýtur á Theo Walcott og fær sitt annað gula spjald og þar með rautt.

AFP

Arsenal og Southampton skildu jöfn, 1:1, á Emirates-vellinum í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Arsenal lék einum færri síðasta hálftímann en náði að halda út og hefði raunar getað stolið öllum þremur stigunum. Arsenal hefur þar með ekki unnið heimaleik í deildinni síðan 4. október.

Á 18. mínútu komust gestirnir í Southampton yfir. Che Adams gerði þá vel á miðjum vellinum og átti frábæra stungusendingu beint í hlaupaleið Theo Walcott, sem var kominn einn á móti markmanni og kláraði afar snyrtilega með því að vippa yfir Bernd Leno í marki Arsenal, 0:1.

Snemma í síðari hálfleik jafnaði Arsenal metin. Bukayo Saka fékk þá boltann á vinstri kantinum, komst á milli tveggja varnarmanna, gaf boltann til hliðar á Nketiah sem var fljótur að hugsa og renndi boltanum inn fyrir á Aubameyang sem kláraði örugglega niðri í bláhornið. Staðan orðin 1:1 á 52. mínútu og hlutirnir farnir að líta betur út fyrir Arsenal.

Það varði þó ekki lengi þar sem innan tíu mínútna var Gabriel, varnarmaður liðsins, búinn að láta reka sig út af eftir að hafa fengið tvö gul spjöld á aðeins fimm mínútum. Fékk hann gult spjald fyrir að vera allt of seinn í tæklingu á Adams á 57. mínútu og togaði síðan Walcott niður á 62. mínútu.

Arsenal þurfti því að leika manni færri það sem eftir lifði leiks.

Á 70. mínútu var Nathan Redmond, sem var nýkominn inn á sem varamaður, nálægt því að koma Southampton yfir að nýju. Þá átti Oriol Romeu frábæra sendingu á milli miðvarða Arsenal þar sem Redmond kom í hlaupinu, teygði sig í boltann en skot hans í stöngina.

Southampton fékk nokkur færi til viðbótar en inn vildi boltinn ekki.

Á annarri mínútu uppbótartíma var Arsenal svo hársbreidd frá því að tryggja sér sigurinn. Saka tók þá aukaspyrnu frá vinstri þar sem Rob Holding stökk manna hæst og náði frábærum skalla sem small í samskeytunum.

Fleiri urðu færin ekki og þurftu liðin því að sættast á jafnan hlut.

Innlendar Fréttir