-1 C
Grindavik
21. janúar, 2021

Ásgeir fær rúmar 27 milljónir vegna galla í hjartabjargráði

Skyldulesning

Íslenska ríkið var í gær dæmt til þess að greiða Ásgeiri Sigurðssyni 27 og hálfa milljón í bætur vegna gallaðs bjargráðs sem læknar á Landspítalanum græddu í Ásgeir.

Ásgeir gekkst undir aðgerð árið 2004 þar sem bjargráðurinn var græddur í Ásgeir. Nokkrum árum síðar, eða í lok árs 2007 og byrjun árs 2008 gaf bjargráðurinn frá sér óþarft stuð í samtals þrjú skipti. Kom á daginn að um væri að ræða bilun í leiðslu úr bjargráðnum. Ákveðið var að framkvæma aðgerð til þess að skipta um leiðsluna strax í lok desember 2007. Önnur aðgerð var svo framkvæmd í janúar 2008.

Ásgeir kvaðst í kjölfar aðgerðanna og óþarfa rafstuðsins ekki hafa náð fyrri heilsu. Nokkrum árum seinna kom í ljós að ein kransæða hans var 70% stífluð og var Ásgeir sendur í hjartaþræðingu. Þá hafði Ásgeir búið við langvinna hjartabilun í kjölfar hjartadreps sem hann fékk árið 1990 og 2002. Héldu læknar Landspítalans því fram að í ljósi veikinda Ásgeirs væri ekki hægt að rekja versnandi heilsu til bilunar í bjargráði og aðgerða tengdum þeirri bilun. Þá lá fyrir að bjargráðurinn sem græddur var í Ásgeir var seinna innkallaður af bandaríska lyfjaeftirlitinu (FDA) vegna hönnunar- og/eða framleiðslugalla.

Í málinu var framkvæmt mat og yfirmat lækna sem sagði að líkur væru á að kransæðastífla Ásgeirs réði mestu um versnandi heilsu á umræddum tíma. Þrátt fyrir þau afdráttarlausu orð féllst dómurinn ekki á þau rök þar sem eðli eðli kransæðastífla og hjartasjúkdóma væri að heilsa sjúklingsins versnaði smám saman. Það væri ekki raunin í tilfelli Ásgeirs og gæti skyndileg versnun á einkennum ekki skýrst af öðru en straumgjöf bjargráðsins bilaða og aðgerðanna sem fylgdu.

Landspítalinn var því dæmdur til þess að greiða Ásgeiri bætur á grundvelli laga um skaðsemisábyrgð vegna galla í bjargráðnum sem spítalinn dreifði og bar þannig ábyrgð á. Ríkissjóður, fyrir hönd Landspítalans, skal því greiða Ásgeiri áðurnefndar 27 og hálfa milljón króna í bætur auk vaxta og dráttarvaxta. Til frádráttar kemur upphæð um 27 milljóna sem ríkið hefur þegar greitt Ásgeiri.

Dómurinn féll, sem fyrr segir, í gær en hefur ekki enn verið birtur á heimasíðum dómstólanna.

Innlendar Fréttir