-2 C
Grindavik
24. janúar, 2021

Atburðir og andrúmsloft erlendis höfðu áhrif hér 1918.

Skyldulesning

Kristján 10. var konungur í sambandsríki Danmerkur og Íslands árið 1918. 

Um vorið gerðu Þjóðverjar síðustu tilraun sína til að vinna sigur í Heimsstyrjöldinni fyrri með stórsókn á vesturvígstöðvunum í Frakklandi sem byggðist á því að Rússar voru slegnir út úr stríðinu um veturinn og þá gátu Þjóðverjar flutt herafla af austurvígstöðvunum til Frakklands. 

En þessi sókn var dæmd til að mistakast, því að nú höfðu Bandaríkjamenn slegist í hóp Bandamanna og komnir með mikið og öflugt herlið á vesturvígstöðvarnar. 

Í ræðu til frönsku þjóðarinnar í júní 1940 minnti Petain forseti leppstjórnarinnar á það til að réttlæta uppgjöf Frakka fyrir Þjóðverjum, að í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar hefðu Bandamenn Frakka lagt til 185 herdeildir samanborið við 20 vorið 1940. 

Kristján 10. var mikill áhugamaður um það að Danir endurheimtu Slesvík og Holtsetaland í fyrirsjáanlegum stríðslokum, land, sem Þjóðverjar tóku af þeim rúmri hálfri öld fyrr.  

Það hjálpaði til í þessum málatilbúnaði að séð var að Þjóðverjar myndu tapa í stríðiu mikla, og Wilson Bandaríkjaforseti setti í 14 punktum sínum fram kröfuna um sjálfsákvörðunarrétt þjóða sem stórveldin höfðu sölsað undir sig á undanförnum öldum. 

Íslendingar höfðu krafist sjálfstæðis og fullveldis og það leit ekki vel út fyrir Dani að harðneita slíkum óskum en krefjast á sama tíma sjálfsákvörðunarréttar fólksins í Slésvík-Holstein. 

Það var að vísu ekki bein tenging á milli þessara tveggja mála, en í þessu alþjóðlega andrúmslofti var þrefað í samninganefnd Dana og Íslendinga með þeim árangri sem var síðan negldur niður 15. maí. 

Endanlegt samþykki Kristjáns 10. gaf hann með semingi með von um að konungssambandið gæti enst lengur en í 25 ár. 

1918 ríkti það alþjóðlega andrúmsloft að þjóðir eins og Pólverjar og Ungverjar fengju frelsi og fullveldi og að við Íslendingar gætum átt von um að verða með í þessari bylgju nýfrjálsra þjóða. 

Í dag berast þær fréttir til okkar á fullveldisdaginn að Mannréttindadómstóllinn í Strassborg kveður upp endanlegan úrskurð sem hefur áhrif hér á landi.

Og það fylgir líka, að þessi úrskurður er kveðinn upp í andrúmslofti, sem hefur skapast vegna þróunar fyrirkomulags stjórnmála í Póllandi og Ungverjalandi. 

P.S. Nú er lagið Frelsisvor komið á facebook síðu mína í tilefni dagsins. 


Innlendar Fréttir