3 C
Grindavik
28. febrúar, 2021

„Auðvitað hefur fólk áhyggjur af þessu“

Skyldulesning

Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélag Vestfirðinga

Ljósmynd/Verkalýðsfélag Vestfirðinga

Fjörtíu og tveir einstaklingar starfa hjá rækjuvinnslunni Kampa á Ísafirði og er fyrirtækið stórt á vestfirskan mælikvarða, en fyrirtækið fékk nýverið samþykkta greiðslustöðvun til þriggja vikna í kjölfar þess að uppgötvaðist mun alvarlegri fjárhagsstaða en gefið var til kynna í bókhaldi félagsins.

„Auðvitað hefur fólk áhyggjur af þessu,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, í samtali við 200 mílur. Hann segir eigendur rækjuvinnslunnar Kampa á Ísafirði hafa fundað með starfsfólki og kynnt fyrir þeim stöðu mála áður en greiðslustöðvun fékkst.

Fyrirtækið hefur skipt samfélaginu á Vestfjörðum miklu máli frá árinu 2009 þegar það var reist á grunni Miðfells sem fór í þrot 2007, að sögn Finnboga. „Þetta er ekki lítið fyrirtæki.“

Verkalýðsfélagið kemur ekki að málum nema félaginu takist ekki að greiða úr sínum málum áður en greiðslustöðvun lýkur, útskýrir hann. „Við verðum bara að bíða og sjá hvort það gangi upp.“

Stórt rækjufélag

Kampi er stórt félag innan rækjugeirans á Íslandi og er um þriðjungur allrar rækju sem unnin er á Íslandi unnin hjá Kampa og helmingur þeirrar rækju sem veidd er á Íslandsmiðum. Stærsti hluti afurðanna er selt inn á Bretland. Þá hefur fyrirtækið einnig lagt áherslu á fullnýtingu afurða og hefur framleitt mjöl úr rækjuskel á Bolungarvík.

Mikið hefur verið fjárfest í bættum búnaði í vinnslunni á undanförnum árum svo sem í nýjum gufukatli sem gengur fyrir rafmagni í stað þess gamla sem hitaður var með olíu. Einnig var árið 2018 fjárfest í nýju karakerfi frá Skaganum 3X.

Skuldar Byggðastofnun

Byggðastofnun kom að því að koma rekstri Kampa af stað 2009 eftir þrot Miðfells, en stofnunin seldi allan eignarhlut sinn í Kampa árið 2012, að því er fram kemur í svari Aðalsteins Þorsteinssonar, forstjóra Byggðastofnunar, við fyrirspurn 200 mílna um aðkomu stofnunarinnar að félaginu.

„Kampi er með lán hjá Byggðastofnun, en ég hef ekki heimild til að upplýsa um fjárhæð þeirra sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.  Byggðastofnun hefur verið gert viðvart um stöðu félagsins,“ skrifar Aðalsteinn í tölvupósti.

Innlendar Fréttir