Austurríski hrottinn Josef Fritzl opnar sig upp á gátt – Segist vera „góður maður“ og „ábyrgur fjölskyldufaðir“ sem fær ástarbréf í fangelsi – DV

0
117

Árið 2009 var Josef Fritzl, sem nú er 87 ára, dæmdur í ævilangt fangelsi. Hann hafði beitt dóttur sína, Elizabeth, kynferðislegu ofbeldi og haldið henni innilæstri í hljóðeinangruðu herbergi á heimili hans í Austuríki í 24 ár. En nú gæti Fritzl hugsanlega losnað úr fangelsi. Nú er komin út ný bók þar sem Fritzl segist vera „góður maður“ og „ábyrgur fjölskyldufaðir“.

Bókin kallast Die Abgruende des Josef F og samkvæmt austurrískum og þýskum miðlum segir Fritzl í bókinni: „Ég er góður maður“. Hann líti jafnframt á sig sem „ábyrgan fjölskylduföður“ og á hann erfitt með að skilja hvers vegna eiginkona hans neitar að tala við hann.

Hann fer í bókinni yfir það þegar hann var handtekinn árið 2008. „Ég var algjörlega einn með hugsunum mínum. Það var enginn sem gat ljáð mér eyra.“

Á þeim 24 árum sem dóttir hans, Elizabeth, var fangi hans fæddi hún honum sjö börn. Þrjú fékk Elizabeth að hafa hjá sér, þrjú fengu að fara upp úr kjallaranum og ólust upp hjá Fritzl og eiginkonu hans og það sjöunda lést nokkrum dögum eftir fæðingu og losaði Fritzl sig við líkamsleifar þess.

Fritzl heldur því fram í bókinni að hann eigi líka fjölda óskilgetinna barna erlendis eftir framhjáhöld sem hann hafi stundað í vinnuferðum. Hann segir að hann eigi son frá Afríku sem sé í dag virtur lögmaður.

Fritzl fer í bókinni yfir veru sína í fangelsinu. Þar segist hann líta á sig sem æðri öðrum föngum. Hann passar sig að fara ekki út í fangelsisgarðinn því þar á hann hættu á að vera laminn. Hann hafi þó vingast við annan fanga, sem hafi verið sakfelldur fyrir að myrða vændiskonu, sem eldi reglulega fyrir hann. „En ég get ekki borðað mikið því ég vil ekki verða feitur.“

Fritzl segist líka hafa fengið hundruð bréfa, flest frá konum sem segjast vera ástfangnar af honum. Fritzl segir að hans helsta ósk sé að verja síðustu árum ævi sinnar utan fangelsisins. Helst langi honum að stofna lítið fyrirtæki.

Fritzl fékk aðstoð frá lögmanni sínum við að rita bókina. Lögmaðurinn, Astrid Wagner, segir að Fritzl sé „bara mannvera, ekki skrímsli.“

„Hann er mjög kurteis og mjög heillandi. Svo bréfið hans byrjaði á hrósi fyrir bækurnar sem ég hef þegar ritað,“ sagði Wagner.

Erlendir miðlar greina frá því að Fritzl glími nú við elliglöp. Hann hefur verið að reyna að fá það í gegn að vera fluttur í fangelsi með minni öryggisráðstöfunum en þær tilraunir hafa ekki borið árangur.