4 C
Grindavik
3. mars, 2021

Bætir aftur í úrkomu á Austurlandi

Skyldulesning

Frá Seyðisfirði í gærkvöldi. Nú hefur dregið úr úrkomu en …

Frá Seyðisfirði í gærkvöldi. Nú hefur dregið úr úrkomu en aftur mun bæta í hana, samkvæmt spám.

Ljósmynd/Ómar Bogason

Það bætir aftur í úrkomu á Austurlandi í dag og úrkomu er spáð á morgun. Því er erfitt að segja hvenær hætta á skriðum á Austurlandi, þá sérstaklega á Seyðisfirði, verði yfirstaðin. 

Að minnsta kosti þrjár skriður féllu að byggð á Seyðisfirði í gærkvöldi en margar skriður stöðvuðust í hlíðinni. Veðurstofan á eftir að mæla umfang skriðnanna en sérfræðingur á ofanflóðavakt segir að hugsanlega séu einhverjar þeirra með þeim stærstu sem hafi fallið í byggð á Seyðisfirði í langan tíma.

Á annað hundrað íbú­ar þurftu að yf­ir­gefa heim­ili sín í gær og gistu þeir hjá vin­um og ætt­ingj­um í nótt. Hættustig er í gildi vegna skriðuhættu á Seyðisfirði og óvissustig í gildi á öllu Austurlandi.

„Það er enn rýming í gildi á þeim húsum sem voru rýmd í gær. Það hefur ekki breyst. Það dró úr úrkomu í nótt og verður úrkomuminna í dag svo staðan er akkúrat núna skaplegri en hún var í gær,“ segir Magni Hreinn Jónsson, sérfræðingur á ofanflóðavakt hjá Veðurstofu Íslands.

Engin ákvörðun tekin um heimkomu

Er þá útlit fyrir að hættan verði bráðum yfirstaðin?

„Svo bætir aftur í úrkomu í dag og úrkomu er spáð á morgun.“

Hefur eitthvað verið rætt um það hvenær fólk getur snúið aftur á heimili sín?

„Nei, þetta er bara metið jafnóðum svo sem svo það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir um það.“

Þekkt er að aurskriður falli á þeim stöðum sem þær féllu á Seyðisfirði í gær. Þessar voru þó að öllum líkindum óvenjustórar. 

„Það hafa fallið skriður á öllum þessum stöðum en hugsanlega eru einhverjar þeirra með þeim stærstu,“ segir Magni en tekur fram að Veðurstofan hafi ekki mælt stærð þeirra. 

„Það voru alla vega þrjár sem féllu að byggð að minnsta kosti. Svo voru margar sem stöðvuðust upp í hlíð í gærkvöldi svo voru svona skruðningar og læti í hlíðinni í gærkvöldi þar sem var svona minna grjót að hreyfast og minni hreyfingar,“ segir Magni, spurður um fjöldann. 

Innlendar Fréttir